Þetta er safn persónulegra einkabréfa til vina og ættingja bréfritara. Þau eru rituð af Íslendingum fæddum á 19. öld og bréfin eru flest skrifuð á því tímabili en sum snemma á 20. öld. Í safninu eru ljósmyndir af bréfunum ásamt nákvæmri eftirritun textans en auk þess hafa verið skráðar ýmsar upplýsingar um bréfin (dagsetning, ritunarstaður o.þ.h.) og bréfritarana (aldur þeirra, uppruni o.fl.) eftir því sem heimildir eru um. Í safninu eru nú ríflega 1.600 bréf frá um 350 bréfriturum.

Bréfasafnið birtir dæmi um persónulega málnotkun sem ætla má að standi tiltölulega nærri daglegu tali fólks. Áhersla hefur verið lögð á að safna bréfum frá fólki víðs vegar um land, úr ólíkum þjóðfélagshópum og konum jafnt sem körlum þannig að þau gefi sem heilsteyptasta mynd af máli Íslendinga á 19. öld.

Að stofni til er bréfasafnið afrakstur verkefnisins Íslenskt mál á 19. öld sem Haraldur Bernharðsson og Jóhannes Gísli Jónsson standa að og hefur notið styrkja úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands.

Heimasíðan er unnin af Elíasi Inga Björgvinssyni og gagnagrunnur bréfanna af Steinþóri Steingrímssyni. Sú síða sem birtist hér er önnur útgáfa en taka verður fram að síðan er enn í þróun þannig að villur geta leynst hér og þar.