Nafn skrár:GunOdd-1889-07-10
Dagsetning:A-1889-07-10
Ritunarstaður (bær):Glasgow, Skotlandi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Aðföng 11.12.2000
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Gunnlaugur Oddsson
Titill bréfritara:smiður,bóndi
Kyn:karl
Fæðingardagur:1854-03-18
Dánardagur:1931-03-21
Fæðingarstaður (bær):Keldunesi
Fæðingarstaður (sveitarf.):Kelduneshreppur
Fæðingarstaður (sýsla):N-Þing.
Upprunaslóðir (bær):
Upprunaslóðir (sveitarf.):
Upprunaslóðir (sýsla):
Texti bréfs

West Selkirk 10 Júli 1889

Ætíð sæll kæri bróðir

Jeg vil biðja að þessi miði hitti bæði þig og þína glaða og ánægða. þjer má finnast kæri bróðir að jeg sje latur að skrifa og játa jeg að svo er en letinni er aldrei bót mælandi. Jeg skrifaði þjer og bjössa 19. December og vona jeg að það hafi komið til skila og ætla jeg því ekki að seygja frá neinu sem við bar fram að þeim tíma. Okkur leið vel altaf á meðan við vórum á Jónsnesi og mun þeim hjónum hafa heldur þótt fyrir að við fórum því við máttum vera kyr en ef við hefðum verið þar þá hefði jeg þurft að fara norður á vatn í sumar til að fá mjer vinnu við Fyskiveiðar eða þá eitthvað út í buskann og sjá aldrei Guðnyu eða börnin fyr en í haust því í Eyjunni er aunga vinnu að hafa yfir sumar tímann og rjeðist jeg því í að fá mann Jon nokkurn Guðnason til að aka öllu dótinu upp híngað þessi Jón flutti vörur norður í Ey í vetur og ljet selja þær þar og taka fysk en hann á heima hjer í Selkirk Svo fór hann eina ferð að sækja fólk í Eyjuna og vóru 17. sem hann tók flest fullorðið

en mestan flutning hefði jeg þessu öllu óku 2 hestar og voru heldur af lakara sortinu þeir vóru ekkert stærri en meðal hestar heima og heldur magrir en sleðarnir og útbúnaðurin voru betri en heima gjörist (hjer eru hefðir 2 sleðar undir þessum stóru ækjum og fremri sleðin getur snúist undir ækinu áþolinmóð svo allir snúníngar eru svo ljettir) það var búinn til kassi hjerum bil 5 al á breidd og 7-8 al á lengð og hafður ofan á sleðonum og bjó jeg um Guðnýu og börnin og stúlku sem hjálpaði okkur ymislegt á leiðinni eins og í rúmi svo þær gætu sofið og lúrt þegar þær vildu enda þurfti þess með því við fórum stundum á stað fyrir dag en ekki gátu fleiri fengið svona gott pláss í kassanum. Við forum frá Jónsnesi eptir miðjan dag á Föstud. seinastan í Góu en komum híngað á Mánudagskvöld á ferðinni bar ekkert til merkilegt nema hún gekk uppá það besta veðrin vóru góð og allir frískir. Við vórum nótt hjá Benidigt Arasyni og gistu þá hjá honum nálægt 40 mans með 14 hesta og tók hann töluverða peninga ynn fyrir þá nótt. Það eru vissir gistíngastaðir í nýlendunni og er þar alstaðar seldur greiði og þó men fái ekki nema að liggja á fjölonum þa kostar það 5 Cent ein maltið frá 15.-20 Cent

en það eru margir sem nesta sig sjálfir en fá bara heitt vatn í te og þá kostar fyrir nottina 10 Cent Jeg ýminda mjer að Benidikt sje með þeim efnuðustu í Nýa Islandi. Svein og Verniku fundum við þau búa ekki langt frá Benidikt og eru heldur í basli en fara nú eptir þetta heldur að koma til hann var til dæmis í vandræðum að geta borgað eina á sem hann keipti á 6 dollara í haust, enda heirði jeg það á Verniku að henni þótti ekki búskapurinn ganga betur en á Bjarnastöðum. Þegar að við komum híngað tók Steini og Sigfús á móti okkur Steini var buin að taka hús parta á leigu handa okkur öllum svo nú erum við saman, 6 dollarar er leigan um mánuðin en plássið er gott 2 stofur niðri og Skúr og 3 hólf uppá lopti og erum við sinn í hverju. þetta hús stendur sunnarlega í bænum sem er lítill valla eins stór og Akureyri útsínið er fallegt Skógar toppur fast við hliðina að kalla að norðan en vestan og sunnan nokkuð fjær en Rauðará að austan. J næsta Húsi bír Björn Skaptason bróðir sjera Magnúsar og Skapta á Akureyri þangað ferðast litlu stúlkur og Leifur á hverjum deygji (en það er lítið lengra en ofan að neðsta húsinu hjá þjer) þar er drengur á sama ári og Rakel og þikir þeim ekki ónítt að vera saman. hann er skikkanlegur og vel vaninn

1 Apríl fór jeg að vinna við smíðar með Enskum á Gufu bát sem var verið að gjöra við fyrir Sigtrigg Jónasson og þá fjelaga þo jeg kinni ekki í Ensku nema að segja jess og nó (já og nei) þá slarkaðist það svona af að jeg var búinn að vinna 8 1/2 dag 14 apríl (suma daga var ekki hægt að vinna fyrir hríð og bleitu) í kaup fjekk jeg ekki nema 1 1/2 dollar á dag af því jeg var mállaus en mjer þótti það gott því jeg gat haft þar vinnu á þriðja manuð, en þá fjekk jeg íllt í vinstri hendina og byrjaði það með óþolandi kvöl í lóanum svo jeg gat lítið sofið í 2 sólarhrínga svo fóru að mínka kvalirnar en hendin að bólgna Steini reindi það sem hann gat að útvega mjer meðöl en það dugði ekki, svo fór eg hjer til læknirs (og Steini líka því hann er farin að tala nokkuð Ensku) hann skoðaði á mjer hendina og bar á hana úr dálítilli glaspitlu sem hann fjekk mjer og kostaði þetta 1 1/2 dollar mjer þótti þetta dýrt og fór ekki til hans optar, það er dýrt að vera upp á þerra hjálp kominn hjer í Ameriku. A Skýrdagsmorgun fór jeg til Winnipeg og var þar í 12 daga þá virtist að mjer væri að batna en þegar jeg var búin að vera viku heima fór mjer að vesna svo jeg fór uppeptir aptur til Winnipeg og var þar hálfan mánuð síðan hefur mjer verið að batna en ekkert gat jeg unnið nema helst að mála en þá vinnu hef jeg ekki fengið nema 1 dag, og í dag eru rúmar 8 vikur síðan að jeg varð handlama, þetta er skrifað á Annan í Hvítasunnu

Jeg fór til Sigurðar Bárðarsonar í Winnipeg hann er hómótpati ættaður frá Breiðafyrði og reindist hann mjer vel jeg hafði betri trú á honum en Alópötum að vísu brúkaði hann bæði Baxtra og Plástra og áburð en lítið af ynntökum. það gróf svo sem ekki neitt í hendinni en var altaf bjúg kend bolga á henni og með horni hafði hann mikið út af skemdu blóði vessum hann setti það á hana 12 sinnum. þetta kostaði alt saman hjá honum og 2 glös sem jeg fjekk til að eiga heima hjá mjer ekki nema 3 1/2 dollar. Meðan jeg var í Winnipeg hjelt jeg til hjá Jakob og Sigríði honum líður eptir vonum og þau yðrast ekki eptir að hafa farið, hann hefur heldur gott orð á sjer þar fyrir dugnað að hann vilji bjarga sjer og verður því betur til að fá lán ef honum liggur á.

I fyrra sinni sem jeg var í Winnipeg bað jeg Pál Bardal Sigurgeirsson frá Svartarkoti að lána mjer Rúmstæði (því hann verslar með húsbúnað) það kostaði 2 dollar hann sagði það væri þvert á móti venju þerra að lána mönnum sem ættu heima nokkuð burtu en af því hann vissi að jeg væri áreiðanlegur maður þá gerði hann það, jeg sagðist ýminda mjer að hann þekti mig ekkert, ekki persónulega sagði hann en jeg hv veit hvaða orð þú og þitt fólk hefur á sjer. svo spurði hann hvenær jeg mundi geta borgað, en jeg sagðist ekki viilja tiltaka neinn tíma því jeg vissi ekki hvenær eg gæti farið að vinna. það gæti skeð að það yrði ekki fyr en eptir 2 mánuði en í seinna sinni þegar jeg var efra borgaði jeg Rumið og um leið segir han við þá sem eru í búðinni Svona eru Þíngeyjingar þeir gera samning að borga ekki fyr en eptir 2-3 mánuði en koma svo eptir eina átta daga og borga. jeg er nærri montin af þessum vitnisburði og þess vegna set jeg hann hjer ef þú gætir orðið það líka því þú att sjálfsagt þinn part af honum

A meðan jeg var í Winnipeg fór jeg opt í Kirkju þar sem Sr. Jón Bjarason messar (sú Kirkja er stór og rúmar fjölda fólks) ekki kunni jeg við þá aðferð sem hann hafði við messugjörðina og sama er að segja um ræður hans. mjer datt í hug á Páskadagin að munur hefði verið að heira Ræðu Sr Benidikts á Grst á páskonum hjerna um vorið, en jeg bist við að jeg fái ekki að heira hjer í Ameríku aðrar eins ræður og hann flutti þá Páskadaga báða og eina ræðu sem hann flutti á Nýársdag nú fyrir nokkru tvisvar messar Sr. Jón hvern sunnudag einusinni fermdi hann í firri messunni um 20 börn en í þeirri síðari tók hann til altaris nálægt hundrað mans alt þetta gjörði hann á frakkanum sínum og fast mjer það ekki nærri eins hátíðleg athöfn eins og í kikjum heima eingin er Prjedikunarstóll í kirkjunni. þó var auglýst í blöðonum að nýr Prjedikunarstoll hefði verið brúkaður í fyrsta sinni þennan dag sem kvennfjelag eitt í Winnipeg hefði gefið en hann var ekki sínilegur fyrir mínum augum Presturin stóð á samastað og hann var vanur á bak við eitthvert hróatill sem líktist meir kassa en altari og því síður Prjedikunarstól enda sagði Gísli Guðmundsson mjer þegar hann síndi mjer Kirkuna að þetta væri bara kassi því það væri ekki búið að smíða neitt altari hann var klæddur utan með grænu klæði. þegar langt kominn er messugjörðin fara 4 menn á stað með diska um alla kirkuna og bera fyrir hvern mann og er ætlast til að hver gefi á þá nokkur sent það gjöra líka margir en sumir ekki. Sá siður þikir mjer ljótur jeg vil kalla það bettla og vil jeg ekki láta vera að því í Kirkjunni

aptur eru aðrir á annari skoðun. þikir þetta vera heiðarleg viðleitni að ná saman peníngum í Kirkjunnar þarfir en jeg get ekki felt mig við það. Hjer í Westur Selkirk eru margir landar en eins og við er að búast misjafnir í fjelagsskap og framkvæmdum en allir eru þeir þægilegir í viðmóti. á Hvítasunnudag var hjer mindaður söfnuður og vóru það 14 sem skrifuðu sig í hann (við Steini baðir) svo fjölga þeir sjálfsagt því þeir í Austur Selkirk ganga í hann að minsta kosti sumir og svo fjölga þeir hjer líka. Sigurður nokkur Hermansson hefur ættaður ur Norðurmúla syslu hefur mest gengist fyrir að þessi söfnuður mindaðist líka hefur hann beðið Enska um stirk til að koma upp húsi sem hægt væri að halda Guðsþjónustu í Einn Enskur sagðist hafa gefið 50 dollara til Kirkjunnar í Winnipeg og vildi hann þó ekki síður styrkja þetta fyrirtæki hjer og gaf 40 doll. annar gaf 25 og svo nokkrir þar fyrir neðann. Svo var viður keiptur í alla ytri klæðningu og gólf í 12 al langt og 9 al breitt hús og er nú búið að reisa það og hef jeg gjört það að nokkru leiti en grindina smíðaði Jon nokkur Ivarsson því þá var jeg ekki svo að jeg gæti smíðað fyrir handar bólgunni. Svo kann jeg í raun og veru ekkert að smíða hjer. Húsgrindur eru altöðruvísi settar saman en heima. þær eru mikið ósterkari en vandaminni smíði en það ekkert sporer höggvið og enginn tappi sagaður alt er járnneglt engin bindingur hafður nema undir gluggum en stoðir þjettar og klætt á þar langs eptir en sú klæðning tvöföld og tjöru papp á milli það er mestum að gjöra hjer að vera fljótur en þó maður gjöri illa er síður að því fundið Steini

er orðin betri smiður en jeg eptir Ameríkönskum mæli kvarða hann hefur líka smíðað með enskum hjer um bil á hverjum deygji síðan stuttu eptir Nýár. hæðsta kaup sem hann hefur fengið eru 1. 75 C en jeg 1.50 Cent og unnum við þá saman, hann er orðin góður í málinu og er heldur líklegt að hann komist hjer allvel af ef hann hefur heilsu, hann keipti Kú í vor sem bar um Sumarmál og elur hann kálfin hún kostaði 30 dollara úr henni höfum við mjólk upp á einhvern máta hann fæddi okkur öllum tíma á meðan jeg var handlama og er mjer hjálplegur í öllu sem hann getur bæði með að útvega mjer vinnu og fleira. Sigfús hefur heldur hjálpað upp á mig líka hann vinnur svo að hann hefur það sem hann þarf. Skaðin sem jeg hafði af því að verða handlama mun vera nálægt 100 dollorum og bý jeg að honum fyrstum sinn en vona þó að það rakni fram úr fyrir mjer ef jeg hef heilsu

A tíðarfar verð jeg eitthvað að minnast, veturinn var hjer góður 1 og 2 Jan. var sólbráð og er það óvanalegt hjer um hávetur. þorrin var nokkuð kaldur á þorra þræl var 28 gr. frost á Raum en mjer fanst það ekki næsta kalt jeg vitjaði einn um net um morgunnin jeg að vísu fann að þá var frost með meira moti en þá var haldin Tombóla í Mikley þann dag og kvenn fólk fór og ferðaðist eins og það ætlaði sjer það er æfin lega logn í skógar brautonum og þessvegna optast farandi eptir þeim en á bersvæði getur hann orðið opt vondur. Góan góð optast sólbráð en frost um nætur og eins framan af Einmánuði í April vóru kulda hret í Maí þurviðri á dagin en frost um nætur seint í þeim mánuði voru alhjelaðir gluggar hjer fyrir fóta ferðar tíma, jörð grjeri seint seint vegna þurka og kulda, sumstaðar hefur verið

oálitlegt með grassprettu og eins kveiti uppskeru en það hafa komið skúrir nú seinni partin af júní svo það lítur heldur betur út fyrir mönnum. Snjór varð aldrei mikill í vetur og tók snema. Kveldin eru hjer skemtilegust optast logn og skafheiðríkt lopt og tunglsljós bæði í vetur og eins í sumar. þrumur koma optast þegar rignir nokkuð til muna en það stendur hverugt lengi yfir höfuð má tíðar farið heita gott en þó er hægt að því að finna nl. að það sje of kalt á veturnar en of heitt á sumrinn. að vísu hafa mjer ekki ógnað hitarnir en þá það er suma daga eins og þegar er sem heitast heima en það er vest að hafa aldrei alminlegt vatn til að drekka það er ómissandi að eiga Is á sumrinn enda munu flestir Enskir hafa utbúnað til þess.

Jeg held jeg hafi eitthvað minstá kindurnar á Jónsnesi í brjefinu sem jeg skrifaði í vetur þó að það sje nú að vísu ómerkilegt þá er það ekki nema eins og annað sem jeg skrifa. en mjer fins að þig getið helst feingið hugmind um hvernig að mjer líður með því moti að tína til ymislegt sem fram við mig kemur í daglega lífinu þó það sje varla þess vert að lesa það Ærnar vóru 5 og 3 Janúar bar sú fyrst og önnur litlu seinna og vóru þær einlembdar 2 báru seinna á góu og voru báðar tvílemdar og eitt lambið svart ein var óborin þegar jeg fór. Á meðan jeg var upp í Winnipeg í seinna sinni eða 15 maí eignaðist jeg dreing og gekk það vel til Guðnýu heilsaðis vel og barninu Óskírður er hann en því hjer er engin prestur Islendskur en það er gjört ráð fyrir að lata hann heita Björn Isfeld þó þar komi

Björn Gunnlaugsson byst jeg ekki við að hann verði stjörnu spekingur samt þikir hann vera efnilegur eptir vonum

Nú er komin 8 júlí og er þá held jeg mál að fara að enda þetta brjef. 6. þm kom brjef frá Markúsi til Kela og Sigfúsar en ekkert brjef hef jeg fengið enn þau fara hjer fram hjá norður í Mikley og svo þaðan hingað en það er langur krókur sjálfsagt eins langt eins og frá Húsavík til Akureirar. I dag komu hjer Emigrantar að heiman og ætla til Nýa Islands ekkert þekkum við af því. í okkar hús tókum við konu með barni sem Guðbjörg heitir og var næstliðið ár í Nýabæ í Keldu hverfi. ekkert Centt á hún í eigu sinni en ætlar til bróður síns maðurinn varð eptir heima með annað barn og fór vestur í Skagafjörð því hann var þaðan ættaður. Jeg bið kærlega að heilsa ollum mínum kunníngum en einkum Sveinbirni í Klambraseli ekki skrifa jeg honum í þetta sinn en hef hug á að gjöra það seinna. Svoð biðjum við að heilsa Marju og ykkur öllum í Geitafelli en einkum Mömmu mjer fynst jeg ekkert hafa að skrifa henni sjerstaklega mjer leiðist það stundum að jeg skuli vera komin svona langt frá henni en það verður ekki aptur tekið. jeg ætla að senda henni 1 dollar að gamni mínu hefði jeg verið ríkur þá hefði jeg látið það vera meira. Svo vil jeg biðja Guð að annast hana og ykkur öll um tíma og Eylífð það mælir af heilum hug þinn ónítur broðir Gunnlaugur

Utaná skript mín er

Mr. G. Oddsson West Selkirk P.O. Manitoba Canada

Myndir:12345678