Nafn skrár:JohHal-1874-09-06
Dagsetning:A-1874-09-06
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4416 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Jóhannes Halldórsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1855-09-10
Dánardagur:1935-09-10
Fæðingarstaður (bær):Geitafelli
Fæðingarstaður (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Grenjaðarstað
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-þing.
Texti bréfs

Milwaukee 6 September 1874.

Elskul. vinur og mágur!

Þú hefur fullkomna ástæðu til að halda eg sje orðinn annaðhvert vitlaus eða "sálarlaus" einsog Árni lagsmaður sagði; þegar eg skuli ekki hafa skrifað þjer eina línu síðan eg kom í þenna nýja heim, en þessi miði á nú að færa þjer mitt innilegasta þakklæti fyrst og fremst fyrir alla góða viðkinningu en sjerílagi fyrir tilskrifin af 10 Febr og 14 Apríl þ.á. sem báru þess ljósan vott að þú einsog tryggur vinur tekur einlægann þótt í kjörum mínum ekki síður hjer en heima, þú mátt ekki ímynda þjer að mjer hafi þótt lítið til brjefanna þinna koma nei! þvert á móti orsökin til þess að eg hef ekki skrifað þjer fyrri er einungis sú að eg hef ekki haft tíma eða tækifæri á að gjöra það einsvel og eg vildi og ætti að vera en nú í þetta sinn ætla eg að helga þjer einum það litla sem eg hef til af tíma og frjettum og vona svo góðs til þín að þú fyrirgefir þó eg svari ekki til hlýtar öllum spurningunum sem þú leggur fyrir mig, því til þess er eg enþá of grænn en mitt álit skal eg segja þjer eptir beztu vitund með því skilyrði samt að þú geymir það hjá sjálfum þjer án þess að láta marga sjá það, ellegar hneikslast á mínum skoðunum þó máské þín egin reynsla í framtíðinni verði þeim í einhverju ósamkvæm þú segir þjer finnist varla nokkur líta rjettum augum á Ameríku þetta er bæði satt og eðlilegt því það eru litlar líkur til að fólk heima sem flest byggir álit sitt á afbökuðum og máske hlutdrægum munnmælasögum geti haft rjetta skoðun á þessu landi sem er næstum eins ólíkt fósturjörð okkar og ljósið er myrkrinu því verður ekki neitað að Ameríka sje gott og frjósamt land máske eitt hið bezta í heimi, en eigi að síður eru hjer ýmsir ókostir eins og allstaðar annarstaðar svo sem mannskæðir sjúkdómar, atvinnuleysi og margskonar svik og táldrægni í viðskiptum manna á milli við þetta hefur Emigrantinn að stríða hjer fyrstu árin stundum alt í einu og getur þú þá ímindað þjer hvernig ástand þessara vesælings málleysingja muni vera, sem ef til vill hafa verið tældir frá viðunandi kjörum í föðurlandi sínu með skrautlegum lýsingum af öllu því góða sem finnst hjer án þess þeim væri gefin nokkur rjett hugmind ókostina, það er vitaskuld að margir komast hjá þessu að nokkru leiti en fáir alveg aðalskilyrðið fyrir að komast hjer fljótt fram er málið, ámeðan það vantar vantar allt, það er líka einhver sjerstök gáfa sem kemur manni hjer að góðu, eg get ekki sagt hvað hún heitir, það er einskonar sameining

af námfýsi áræði og ráðvendni hver sá sem hefur þessa gáfu ásamt vilja og staðfestu til að vinna eptir því megni sem guð hefur gefið honum þarf varla að bera þungar áhyggjur fyrir lífi sínu og sinna eptir að fyrstu 2 eða 3 árin eru afstaðinn það er skiljanlegt að alt er verst fyrst ámeðan maður er að ná sjer niðri í málinu og á gangi hlutanna, að vísu veitir mörgum það næsta erfitt en eg er sannfærður um að þú gjörðir meiri framför í því tilliti á einu ári helduren margir aðrir gjöra á þremur árum eða þaðan af lengri tíma því yngri sem maður kemur hingað þess ljettara verður honum að læra þetta nýja líf þó álít eg ekki gott fyrir óstaðfesta unglinga að koma hingað, það er ef þeir eru ekki undir leiðsögn foreldra eða annara góðra vandamanna því hjer eru til óteljandi villigötur sem hinn óreyndi getur hæglega villst á nema því meiri varkárni sje við höfð, þú segist imynda þjer að Amer. sje auðug að mentun og „money" það er rjett, en þó álít eg að menntunin sje hjer langtum meiri í verklegu - helduren í andlegu - tillliti, síðan eg fór að geta talað dálítið hef eg opt spurt hjer innfædda drengi sem gengið hafa á alþýðu skólana 6-8 ár um hvað þar sje kennt upplýsingar þær sem eg hef fengið hjá þeim sannfæra mig um að hver meðalgreindur unglingur heima þó hann hafi aldrei úr foreldra húsum farið til að læra nokkuð - getur rekið þar í vörðuna bæði í andlegum og veraldlegum efnum, hjer skipta foreldrarnir sjer ekki um annað en senda börnin í skólan án þess nokkurntíma sjálf að grennslast eptir hvert þau læra þar nokkuð eða ekkert og yfir höfuð finnst mjer greinin í Norðanfara næstliðinn vetur um trúarlíf Ameríku manna vera hið sannasta atriði sem hann hefur haft meðferðis áhrærandi Ameríku. þú spyrð hvers eg sakni mest að heiman þessu get eg ekki svarað beinlínis mjer finnst eg sakna nokkuð jafnt alls hins góða er eg naut heima en hef ekki hjer; þó er það einkum málið því mjer finnst einsog eg þurfi að láti einhvern skít uppí mig, ellegar einsog kerlingin forðum mjer finnst það ekki vera jeg sjálfur þegar eg þarf að tala þetta skrípamál Enskuna sem er svo hræðilega fátæk í samanburði við „móðurmálið mitt góða hið mjúka og ríka" og væri það stór skömm ef nokkur landi sem hingað kemur ljeti sjer verða að hafa skipti

á þessu dýrmæta og metanlega erfðafje okkar og hinum óhreina samtiningi sem hjer er brúkaður, þú spyrð mig enfremur hvert maður geti ekki náð meiri menntun hjer en heima? Jú vissulega einsog eg hef áður sagt mest í verklegum efnum, því sú menntun getur fljótast orðið að peningum eg veit það er mikill ábyrgðarhluti að dæma heila þjóð, en eg hlýt að segja að mjer finnst aðalstefna þjóðarandans hjer vera peningafýkn. - Jeg ætla nú að slá botninn í formálann sem er orðinn lengri og vitlausari en góðu hófi gegnir og segja þjer hið helzta sem við hefur borið ámeðal landa hjer í sumar eg veit annars að Sigf. skrifar þjer það allt miklu betur, svo eg verð eins fáorður og eg get, þó heimskulegt væri fyrir okkur sem erum komnir svo langt frá hiinni Eldgömlu Ísafold skutum við eigi að síður saman dálitlu fje seint í Júlí til að halda uppá þúsund ára afmæli hennar fyrir fje þetta leigðum við lystigarð einn skammt fyrir utan borgina, keyptum efni og tilbúning á Islenzku flaggi efni í Isl búning handa tveimur karlmönnum og fl smávegis 2 Ágúst kl 2 e m byrjaði Sra Jón Bjarason Isl messu í kirkju norzks safnaðar hjer í bænum, þar vóru samankomnir nálægt 60 Isl ásamt fjölda Norðmanna og Baunverja svo kirkjan var troðfull, fyrir sögnum voru P. Þorl og Lára Sveinbjörnsen kona Sre Jóns og hann hlutdrægnislaust að segja mikið betur fram hjá þeim helduren Norðm. sem eg hef rjet heyrt til í sömu kirkju, ræðan var allgóð þegar gengið var úr kirkju kl 3 1/4 em settu Jón Olafson og Páll Björnson frændi hans - sem báðir vóru á gömlum Isl búning - upp tvö flögg sitt hvoru megin við kirkjudyrnar hið Ameríkanska hægramegin, en hvíta fálkann vinstra megin og varð mörgum starsýnt á hann næst á eptir J. og P komu Lára og Sigurjóna Laxdal báðar á skautbúningi þannig var gengið út til garðsins og slógust margir Norðm. í förina, allir sem sáu til ferða okkar spurðu hver annan hvílíkt flagg og hvaða skrípabúningur er þetta? og heyrðust þarum margar og misjafnar tilgátur og margur göturstrákur hló að faldinum en þetta alt gjörði okkur ekkert til, við komumst klaklaust útí garðinn, þar voru borð og stólar til reiðu ásamt margskonar vínföngum og sælgæti sem

(Andersen) sænskur maður var fenginn til að selja þar, í garði þessu vóru mörg falleg trje á milli tveggja hinna stærstu af þeim var festur upp ræðustóll með hvítum dúk yfir og prýdt alt í kring með laufum og blómum á trjeð til hægri h. var fest stöngin með Amer. flagginu en hið Isl vinstra megin, í stól þenna steig fyrstur Jón Olafson og mælti fyrir minni Íslands það var langt og snjallt erindi og bar ljósann vott um eldfjörugan frelsis anda og heita föðurlands ást höfundarins, eg vildi gefa mikið til þess að eiga þá ræðu á prenti en þess er ekki kostur því J. sagðist ekki vilja nje geta rifjað hana upp aptur, jeg segi þjer satt það var „maleriskt" að sjá þenna beinvaxna og liðega mann með föla svipinn sem hægt var að lesa svo margar tilfinningar úr ámeðan hann talaði - standa þarna á stuttu treyjunni með hvíta kraganum sem náði næstum úta miðja öxl og stuttu buxunum með rauð dúsknum neðan við knjeð sem skar svo vel við skjallhvíta bómullarsokka og hrafnsvarta skó úr „Guttarperka" sem tóku við neðst, og flöggin til beggja hliða sem kvöldblærinn veifaði án afláts rjett einsog hann langaði til að vefja þeim um höfuð ræðu mannsins og þurka svitann af enni hanns í þakklætisskyni fyrir að hann fjekk alveg óhindrað að leika sjer við rósina á vöngum hinna mörgu litfríðu Skandinavísku yngismeyja sem sátu grafkyrrar fyrir krapt ræðunnar sem endaði með áskorun um að drekka afmælisskál Islands og var það gjört samstundis í Californisku kampavíni og hrópað nífallt „Húrra"! á eptir ásamt Leingi lifi Island og Islendingar Mörg fleiri minni voru og drukkin og yrði of langt að telja það allt upp í þessum miða sem nú þegar er orðinn sjer og mjer til skammar, stuttu eptir þjóðhátíðina sem endaði vel og fríðsamlega vóru samin lög fyrir fjelag sem á að heita „Samband Islendinga í Vesturheimi" það er tilgangur fjelags þessa ekki einungis að viðhalda öllu sem verið hefur og er þjóð okkar til sóma og eflt getur frjálsan menningaranda á meðal landa hjer, heldur á það einnig að verða með tímanum nokkurskonar liður til að samtengja Islendinga heima við þá sem hjer eru eða hingað koma eða fara seinna vonast eg eptir að geta sagt þjer eitthvað meira um fjel. þetta og máske sent þjer lögin samin af J. Ol. og Olafi frá Espihóli

Hitt blaðið var á enda fyr en mig varði svo eg má til að stinga hjer niður penna rjett til að kveðja þig, en eg ar næstum búinn að gleyma að segja þjer frá Þorláki gamla og sonum hanns sem nú eru farnir að minda nýjan Ljósavantshrepp norður í „Shawana county" Wis. þar er vatn eitt sem Indverjar endur fyrir löngu kölluðu „Lake Shawana" og segja fróðir menn það þýðir sama sem Ljósavatn á Íslensku svo það lytur út fyrir að gamla brýnið komist þar í einskonar endurnýjung af hinu fyrverandi embætti, þar nyrðra er sagt allgott land en erfitt um aðflutninga enþá. Jón Olafson, Páll Björnson og Olafur frá Epihóli hófu landaskoðunarferð vestur til Alaska seint í Agúst eptir fengin vóru skírteini frá Presidentinum um að þeir skildu fá fría ferð fram og til baka, Jon Ol samdi bænarskrá til Grants í nafni Islendinga (á Islenzku) í næstl Júlí mán. og fjekk hún fljót og góð svör um að 3 Isl skyldu fá fría ferð til „St Fransisko" og þaðan norður með ströndum til Alaska til að skoða þar land sem er álitið eitthvert hið hentugasta plass hjer í Amer. fyrir Isl hvað loptslag og atvinnu vegi snertir. Jeg ætla ekki að lýsa þessu meira fyrir þjer því bæði er eg ófróður í hvernig þar hagar til og svo fær þú greinilega lýsingu af Alaska í Þjóðólfi, máské áður en þessi miði nær heim Jeg sendi þjer með þessu blaði sýnishorn af Amer. flaggi og attu að gefa Dísu það til minningar um „litla frænda" líka sendi eg þjer Dagblað sem inniheldur frjettir af þjóðhátíðinni í Reykjavík og væri gaman ef einhver vildi snua því á Islenzku, það er annars merkilegt að sjá að blessaður Biskupinn skyldi einn verða sjer og þjóðinni til skammar, eg las þessar frjettir hjer í „Milw." sama morguninn kl 9 1/2 fm sem blaðið er gefið út í „Chicago" svona ganga flutningarnir hjerna greiðlega

Sigfúsi líður vel í „Nebr." hann ætlar heim í vetur með fyrstu póstskipsferð til að sækja ........ sína ekki máttu samt láta það frjettast því eg held hann vilji koma öllum á óvart, en gaman væri ef þú gætir orðið samferða til baka, ekki sízt

ef þú færðir mjer kærustuna sem þú varst svo góður að gefa mjer í brjefinu þínu; hvar er hún nú eða faðir hennar? - Nú er ekki tími til að skrifa meira, þú verður að fyrirgefa þó efnið í þessu brjefi sje heldur sundurlaust því eg hef alldrei haft neinn stöðugan tíma til að skrifa og það sem er komið á þetta blað hef eg skrifað á 5 minútum

Heilsaðu kærlega öllum sem þú veizt mjer er vel við og bið þú mjer fyrirgefningar á „brjefasyndum" - eg er hjá bakara hef 130 Doll um árið og alt frítt. Fyrirgefðu flýtirinn þínum einlægum

Jóhannesi

E.skr.

Eg vona þið verðið búin að fá mind af mjer, seinna skal eg ef g. l. senda aðra betri mindir einsog eg sendi heim kosta hjer 2 Doll. 12 Dísa á litlu mindina sem eg læt fylgja flagginu Kystu G. systir fyrir mig með þakklæti fyrir brjefið síðast, eg vona þið skrifið mjer til einhverntíma í vetur. Guð veri með ykkur og gefi ykkur farsællega ferð ef þið ráðist í að koma hingað þegar. þegar eg fæ tíma skal eg skrifa betur

þinn

JHalldórson

Myndir:123456