Nafn skrár:JohHal-1876-05-08
Dagsetning:A-1876-05-08
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4416 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Jóhannes Halldórsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1855-09-10
Dánardagur:1935-09-10
Fæðingarstaður (bær):Geitafelli
Fæðingarstaður (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Grenjaðarstað
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-þing.
Texti bréfs

Box 33

Milwaukee May 8th 1876

Elskul vinur!

Kærar þakkir fyrir tvö ágæt bréf af 3ja Jan. og 16. Febr meðtekin 23 f.m. Jeg er nú búinn að taka penna og blað til að hjala eitthvað við þig en veit þá ekkert hvað það á að vera heima var siður að skrifa um tíðina, skepnu höld og fleyra þessháttar, en hjeðan er ekki um slíkt að tala þó hjer sje að vísu bæði tíð og skepnur þá er ekki verið að færa í letur þó góð sje krapsturjörð eða prestlamb safnist til feðra sinna og svo veit eg að þú hefur líka lítið gaman af svoleiðis frjettum. - Jeg vinn en þá í sama stað, en ekki verð eg þar lengi nema eg fái meira kaup að sönnu er vinnan mikið ljett en nokkuð vandasöm eg er núna orðinn vigtarmaður (scaler) og þykji

mjer það skemtilegt verk, á meðan eg gjöri ekkert axarskapt Íslendingum sem hjer eru líður allvel frá Manitoba höfum við ekkert frjett síðan í Marz, þá voru Ísl. þar komnir í 15.000 dollara skuld við stjórnina í Canada fyrir mat og aðrar nauðsynjar sem þeir hafa þarfnast í vetur, samt eru þeir öruggir og vænta eptir gulli í skél með sumrinu, ekki lízt mjer á Nýja Ísl. sem sumir kalla þessa nýlendu í Manitoba, veturinn var þar fjarska harður einkum hvað frostið snerti sem varð þar mest 37 stig á Reaumur en sjaldan undir 15. snjórin varð næstum 2 álnir á dýpt í skógunum þar sem vindurinn náði ekki til að berja hann saman, dagblöðin segja að en sje illsiglandi um „Vinnepeg" vatnið fyrir ís

Jeg ætlaði að senda þjer með þessari ferð Litagraph mindir af sýningahöllunum í Philadelphia eg hef þær til sölu fyrir mann í Cincinati en er til allrar ólukku útseldur, þessa daga á eg von á nýju upplagi og ef það kemur á morgun get eg sent þjer þær. Mikið langar mig á sýninguna en það kostar meira en eg get sparað og svo er ei meir um það, Ekki hef eg enþá skrifað Tryggva því eg veit ekki Adressu hanns fyren með næstu ferð, óvíst er að eg komi heim í ár ef eg get fengið hjer góða stöðu og græningja í vasann, Jón yngri Halldórsson hefur líka beðið mig að verða sjer samferða aptur að vori, þá ætlar hann að sækja Mekku hvað sem fósturfólk hennar segir til þess.

Mig minnir að það sem eg skrifaði þjer seinast væri að mestu leyti bindindis-stælar og bið eg þig að virði ekki á verra veg þó eg hafi máské orðið of orðmargur, eg er orðin svo vanur að rífast um þessháttar því hjer verður maður að vera annaðhvert heitur eða kaldur í þeim efnum, mjer stendur núna til boða að ganga í bezta bindindisfjelagið sem hjer er til og heitir „Temple of Honor" en því eru samfara ýmsir leyndardómar (secrets) sem engin fær að vita fyrir fram svo eg er á tveim áttu. - Fyrirgefðu nú allt þetta bull sem eg skammast mín að senda þjer. Heilsaðu S bróðir þínum og kysstu fyrir mig G. systir og litlu frændkur mínar Guð blessi ykkur og þær, eg er þinn elskandi vinur

JHalldórsson

Myndir:123