Nafn skrár:JohHal-1913-07-27
Dagsetning:A-1913-07-27
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4416 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Jóhannes Halldórsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1855-09-10
Dánardagur:1935-09-10
Fæðingarstaður (bær):Geitafelli
Fæðingarstaður (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Grenjaðarstað
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-þing.
Texti bréfs

Minneota, Minn. U.S. 27da Júlí 1913

Kæri vinur og mágur,

Eg man ekki núna í svipinn eftir nokkru orði á íslenzku máli sem er nógu sterkt til að útmála hve mikið eg skammast mín fyrir að hafa ekki fyrr en nú sýnt lit á að svara ágætu bréfi frá þér dags. 26ta Jan. síðastl., en sem kom til mín seint í marz mánuði, Eg þakka það nú eins innilega og mér er unnt, og bið þig að hafa þolinmæði til að lesa, og taka til greina þá einu afsökun sem eg hef að bjóða fyrir þessa löngu og ósæmilegu þögn. Orsökin er sem fylgir, -

Síðastliðið haust var póstmeistarinn hér í Minneota (Hann heitir Gunnar Björnson, ættaður af Austurlandi) kosinn erindsreki á löggjafarþing (Legislature) þessa ríkis. Það þing byrjar í Janúar, Landslög leyfa ekki að nokkur sem sendur er á löggjafarþing haldi samtímis nokkru öðru embætti í þjónustu landstjórnarinnar, af þessu leiddi því það að Mr. Björnson hlaut að segja lausu póstafgreiðslu starfi sínu hér, Bæjarbúar báðu þá strax um að

mér yrði veitt þetta embætti, þar eg væri sá eini maður á staðnum er væri því verki nokkuð vanur Alþingismaður (Congressman) okkar, og sömuleiðis elzti "Senator" þessa ríkis gáfu mér meðmæli sín til forseta Bandaríkjanna, sem þá var Mr. Taft, Hann tiltekur hverjir skuli vera póstmeistarar í þeim flokki sem þessi bær er í, en sú tiltekning gildir ekki nema með samþykki meirihluta í efri málstofu (Senate) Alríkisþingsins. Mr. Taft veitti mér þetta embætti, en þegar til "Senat"sins kom "stakk í stúf" fyrir mér og 47 öðrum sem forsetinn vildi að yrðu póstmeistarar víðsvegar um þetta ríki, því þegar hér var komið sögunni voru nýjar alríkis kosningar afstaðnar, og í þeim unnu "Democrat"ar, andstæðingar Tafts frægan sigur, og þeir höfðu nógan liðsafla í "Senat"inu til að hindra staðfestingu á embættisveitingum Tafts, þangað til að forseta staða hanns væri á enda, og nýkjörni forsetinn Mr Wilson tæki við stjórn, og gæti þá veitt þetta og önnur embætti þeim sem höfðu sömu pólitiskar skoðanir og hann, af öllu þessu þófi leiddi svo það að engum var veitt þetta embætti fyren seint í Maí, en allann þennan tíma varð eg, með mjög lélegri hjálp

að fylla þessa stöðu, sem er mjög vandasöm því auk vanalegra póstafgreiðslu starfa, sem hér snerta að meðaltali meðferð á eitt til tvo þúsund bréfum og bögglum á hverjum degi, þá er í sambandi við þetta pósthús sala og útborganir á milli-landa "International" peninga-ávísunum, og þar að auki sparibauka deild, "Postal Savings Department" fyrir alþýðu undir umsjón landstjórnarinnar. Allt þetta útheimtir bókstaflega alla mína krafta og athygli, or as we say here "It was all I was good for" Eg hlakkaði því til heimkomu Mr Björnsons's í Apríl, vonandi að hann hjálpaði nokkuð, því hann var enþá í ábyrgð fyrir að allt gengi vel til, en sú von brást að miklu leyti því Mr B. hefur síðan verið á sífeldu ferðalagi, stundum sem sendinefndarmaður í þarfir ríkisins, en oftar sem ræðugarpur, Hann er vel máli farinn og því oft sókst eftir honum til að tala á ymiskonar mannfundum í nærliggjandi sveitum. Af þessu flakki hanns hefur líka stundum leitt að á mig hefur fallið nokkuð af prófarkalestri

fyrir vikublað Mr. Björnson's "Minneota Mascot". Síðan nýsetti póstmeistarinn tók við stjórn hefur annríki mitt allt fram að þessu verið nærri jafnmikið, því hann er en ekki búinn að læra sitt starf svo treystandi sé. Allt þetta annríki og áhyggjur því samfara, er orsökin til - og afsökun mín fyrir hinni löngu þögn minni, og svo þakka eg aftur fyrir bréfið, það opnaði mér svo að segja nýjan heim, sýndi mér nýja þjóð, og að sumu leyti nýtt land. Einsog þú getur til hef eg í huganum alltaf hingað til "séð" landið og þjóðina að mestu leyti einsog hvortveggja var þegar eg fór að "heiman" (því enþá er það "heim") og við það ætla eg að kannast nú þegar, að sjaldan eða alldrei hefur mig langað jafnmikið til Islands og síðan eg las bréf þitt. En ekki getur þeirri löngun orðið fullnægt þetta ár, hvað sem seinna verður. -

Mjög mikið þótti mér varið í að sjá sögu Kaupfelagsins ykkar, Bæði vegna þess að eg hef mestan hluta æfinnar fengist eitthvað við verzlun, en einkum vegna þess að eg fyrir nær tuttugu árum varð til þess að stinga uppá stofnun "Cooperative verzlunar ámeðal Isl. í þessu bygðarlagi, en

vann þó alldrei við þá verzlun eftir að hún komst á fót því "landinn" var ofnízkur til að borga mér algengt búðarvinnukaup og tók fyrir verzlunarstjóra mann sem ekkert þekkti inní slíkt og alldrei hafði verið við þesskonar störf samt stóð þetta fyrirtæki fáein ár, og strandaði svo, einsog oftast vill verða, á ofmiklu lánstrausti

Annan Ágúst 1909 var eg staddur í lystigarði við borgina Seattle á Kyrrahafströndinni, þar var þá hátíðarhald svokallaðs "Islendingadags". - Sá sem þar mælti fyrir minni Islands hafði fyrir "texta" orðin "Islenzk þrautsegja" og fannst mér þá að hann gjöra ofmikið úr henni, Byggja ofstóra og of glæsilega loftkastala á því sem hún gæti til hliðar komið, en nú síðan eg las bréf þitt hefur skoðun mín í þessu tilliti algerlega breittst því mér dylst ekki að mestmegnis fyrir þína egin dæmafáu "þrautsegju" er "K.Þ." orðið ti, orðið það sem það nú er, ekki aðeins fótföst fjárhagsleg stofnun, - það útaf fyrir sig er mikilsvirði heldur, og öllu fremur hitt, að í velfarnan þessa

velhugsaða fyrirtækis hafa felagslimir og aðrir áþrifanlega lexíu til sönnunar því, að jafnvel á fátæku og afskektu Islandi, er mögulegt að koma á fót stórri framför, ef viti, ráðvendni og þrautsegju er leyft að ráða, en tortrygni, öfund og óskilsemi eru settar á óæðra bekk. Tiltölulega fáir af felagslimum sjá máské þessa hlið málsins einsog hún kemur mér fyrir sjónir, en ókomin tíð mun leiða í ljós marga heillavænlega óvexti sem beinlínis eða obeinlínis eiga rót sína að rekja til þess vits, og þeirrar staðfestu sem saga "K.Þ." ber vott um. Hér getur að líta ómótmælanlega sönnun fyrir því að "Union is strength".-

Það liggur mjög nærri að eg öfundi þig fyrir að hafa reist sjálfum þér svo veglegann minnisvarða og þó gleðst eg innilega yfir þeim heiðri sem þú átt nú á vöxtum hjá samtíð þinni. Vitanlega er samtíð oft svo skuldseig í þessu tilliti að erfingi hennar, framtíð, ber kinnroða fyrir, en máske Þingeyingar séu undantekning hvað þetta snertir, Anyhow, the honor is yours, and the knowlegde of deserving it, whether you get it or not, is worth more to you than empty public praise would be. I said "empty" because experience has taught me that Icelandic public gratitude generally confines itself to smooth words, without material results to its benefactors. -

Lífstarf mitt hefur ekki verið þess eðlis, eða þess verdt að eftir því verði munað þegar eg er kominn undir græna torfu, og þó finnst mér eg oft hafa staðið í allhörðu stríði, stríði fyrir aðra, ekki sízt á frumbýlingsárum landa minna í þessu byggðarlagi þegar hverri frístund, og því nær öllum arði vinnu minnar var varið í þarfir mállausra og ráðvilltra "landa" sem í flestum tilfellum vantaði efni - og líka í sumum - vilja til að sýna nokkurt þakklæti fyrir, enda var þetta stríð mitt ekki háð í von um peningalegan hagnað, heldur sem uppfylling á siðferðislegri skyldu, einsog hún kom mér fyrir sjónir í það og það skiftið, eg verð því nú í elli minni að láta mér nægja föruneiti meðvitundarinnar um að hafa aðeins kastað steini úr götu hér og þar, ístað þess að horfa tilbaka yfir óslitna braut að vissu takmarki einsog þú getur gjört, og samt er eg ekki óanægður með lífið, sé ekki eftir að hafa yfirgefið gamla blessaða ættlandið mitt Island, því í þá daga að minnsta kosti var það harðlynd fóstra fyrir fátækan og óupplýstan smaladreng. Vitanlega hefur nýja fóstran ekki fengið mér auð í

höndur, en hún hefur séð mér fyrir tækifærum til að menta börn mín, svo þau þurfa ekki að líða það sem eg hef liðið, og geta staðið straum af mér ef þörf gjörist.

Mikið gladdist eg þegar eg las um allar framfarirnar sem þú segir mér frá á mínum gömlu stöðvum, en ekki skylst mér að gaddavírsgirðingarnar ættu að teljast í þeim flokki, því þó eg geti ímindað mér að þær máske gjöri smalamennsku léttari heldur en hún var í minni tíð, og ef til vill hjálpi til að verja engjar, þá er eg hræddur um að þetta verði dýrkeypt þeim sem sagt er að hafi sett jarðir sínar í veð fyrir þessi vírgerði. - Nýlega sögðu blöðin hér frá að Enskt auðfélag hefði keypt Dettifoss, sé það satt, þá spái eg að Húsavík eigi eftir að verða endastöð í "Terminal" fyrir járnbraut frá fossinum, því hún (Húsavík) hefur tryggari höfn að bjóða helduren Vopnafjörður eða Raufarhöfn, það útaf fyrir sig er mikið meira virði helduren munur á vegalengd. Braut til Húsavíkur yrði eftir því sem mig minnir öll nokkurnveginn á jafnsléttu með því að fara niður Geldingadalinn, Sú braut verður eðlilega knúð af rafmagni frá fossinum, og þá ætti líka að vera hægt fyrir Húsavík

að fá með þolanlegu verði rafmagn til lýsingar of og til að brúka í stað eldsneytis, ef þið verðið ekki áður búnir að notfæra þannig Búðar- eða Þorvaldstaða-ána. Eg hef margoft hugsað um hvað margt þarflegt mætti vinna með öllu því heljarafli sem ár eftir ár, og mann framaf manni stendur til boða í fossum á Islandi, Brúarfossarnir til dæmis, úr þeim mætti fá nóg afl til að mæla upp allt hraunið og gjöra það þannig að áburði og verzlunar vöru, Lýsa hvern bæ í Aðalreykjadal og þaraðauki knýja eða draga allann flutning á járnbraut til Húsavíkur og máské miklu meira, Þverár fossinn saman við Geitafell gæti séð Reykjahverfi fyrir ljósmat o.s.frv., því fara nú ekki einhverjir ungir framfaramenn til útlanda og læra "Electrical Engineering"? Um leið gætu þeir vakið eftirtekt annara eða erlendra manna á þessari ónotuðu auðsuppsprettu og þannig dregið til landsins erlent fé til að koma á stofn nýum atvinnuvegum og nýrri menning, það er að segja ef ekki eru nógir peningar í landinu sjálfu til að koma þessu í framkvæmd, sem líklega er tilfellið. Eg er hræddur um, máské vegna

ókunnugleika - að Island vanti framtaksama menn ekki síður en peninga, menn sem þora að hugsa og tala um eitthvað nýtt, og færast í fang framkvæmd á því þrátt fyrir skop og hrakspár fjöldans. Við erum nýlega búin að fá rafmagns-straum hingað til þorpsins okkar, og er hann brúkaður ekki aðeins til lýsingar úti á strætum og inni í húsum, heldur líka, og að meiru til að knýja ýmsar verkvélar, og til matreiðslu í smærri stíl. Maður getur ekki hugsað sér hreinlegri og auðveldari veg til þessara hluta helduren rafmagnsbrúkun. -

Margt fleira mætti "rabba" við þig í kvöld ef tími leyfði og höndin væri ekki svo óstyrk, en eg hætti í þetta sinn, vonandi þú takir vilja fyrir verk og fyrirgefir. - Eg er nýbúin að skrifa Guðnýu og vona að þessar "sendingar" frá mér hitti ykkur, og alla ykkar kæra heila á húfi. Guð veri með þér.

Þinn gamli vinur

J.H.Frost

Myndir:12345678910