Nafn skrár:SigBer-1898-03-30
Dagsetning:A-1898-03-30
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 5020 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Sigfús Jónasson Bergmann
Titill bréfritara:bóndi,bókbindari
Kyn:karl
Fæðingardagur:1836-06-02
Dánardagur:1904-03-30
Fæðingarstaður (bær):Garðsvík
Fæðingarstaður (sveitarf.):Svalbarðsstrandarhreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):
Upprunaslóðir (sveitarf.):
Upprunaslóðir (sýsla):
Texti bréfs

Gardar N. Dak. 30 marz 1898

Hr. Skúli Thoroddsen

Háttvirti herra!

Jeg skrifaði yður 2 eða 3. janúar þ.á. að ekki væri neitt komið til mín af bókum yðar, en littlu síðar þann 6. Grettisljóð og Sögusafn Þjóðv. U. 1-3 hepti en ekkert af fjörða hepti sem þjer þó segist senda með. Jeg bjóst við að fá það með næstu ferð en það hefir ekki komið. Reindar taldi jeg ekki nákvæmlega sögu heptin I-III. en held þó að þau hafi komið öll. Grettisljóðin hefi jeg ekki talið og gjöri það ekki fyr en jafnóðum og jeg hepti eða bind þau. Virðist líklegt að ekki vanti af þeim þó sumir pakkarnir væri orðnir hrjálegir og stöku ark ofurlítið skemd nema óbrotnu örkin voru ágjætlega á sig komin. Jeg bind það sem helst sjer á og vona að ekki verði ónítt nema eitt eða tvö örk. Jeg hefi nú selt nokkuð, og

sent 50 eintök hept til Winnipeg eptir samníngi við bóksala þar. Salan gengur ekki einsvel og jeg bjóst við, meðfram fyrir hvað bækurnar komu seint, vonandi að næsta haust bæti úr því.

Jeg sendi yður nú aðeins $20 í þetta skipti en skal hafa í huga að reinast yður eptir trausti því er þjer hafið borið til mín. Mjer þykir ekki hættulaust að senda mikla peninga á þennan hátt og vil því heyra álit yðar um: Hvort yður kemur betur að fá póst-Money orðu eða banka ávísun. Jeg veit nú ekki hvort hægt er að skipta við Reykjavíkurbankann en ávísun á Landmannabanka í Kaupm.höfn hefi jeg opt sent og viðtakendur verið ánægðir. Eins mundi jeg geta haft viðskipti við hvern þann banka í Skotlandi er þjer tilnefnið. Það spyrja mig margir eptir kvæðabók föður yðar Hver hefir útgáfurjett að henni?

Nú gengur mikið á í henni veröld, pólitísk orusta um allt Ísland og það í harðastalagi en hjer er búist við blóðugu stríði, og þjóðin allæst, þó stjórninni hafi tekist að halda öllu í nokkru hófi híngað til. Við Íslendingar erum samt út úr því öllusaman, það bjóðast fleyri fram en þurfa að öllum líkum, og við erum fjarri sókna og varna-svæðinu.

Allt bærilegt að frjetta hjeðan úr sveit nema hvað margir segjast peníngalittlir Stafar það mikið af því hvað margir mistu í haglbil allt sitt hveiti næstl. sumar Vetur þessi hefir verið afbragðs góður í þessu plássi, en víða annarstaðar um Bandaríkin með allhörðum köstum og nú berast skaðafrjettir af vatnavöxtum hjer suð austur um ríkin.

Að endingu þakka jeg yður bóka sendinguna (vona IV heptið komi seinna) og kveð yður með vinsemd og virðingu yðar skuldb. vin

S. Bergmann

Myndir:12