Nafn skrár:BenAra-1878-01-14
Dagsetning:A-1878-01-14
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4415 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Benedikt Arason
Titill bréfritara:bóndi
Kyn:karl
Fæðingardagur:1841-10-15
Dánardagur:1923-05-05
Fæðingarstaður (bær):Stóruvöllum
Fæðingarstaður (sveitarf.):Bárðdælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):
Upprunaslóðir (sveitarf.):
Upprunaslóðir (sýsla):
Texti bréfs

Völlum 14 Janúar 1878.

Kæri frændi!

Alúðlega þakka jeg þjer alla gamla og góða viðkynníngu, og þarmeð tilskrifið sem jeg meðtók sumarið 1875. þá var jeg í Kinmount (í Ontario) þá fjekk jeg líka brjef frá Þorbergi á Halldórsstöðum , og Metusalem á Helluvaði, þitt brjef var innaní brjefi frá Sigtr. í Kasthvammi, fyrir þessi tilskrif þakka jeg ykkur öllum margfaldlega. Jeg hef nú skrifað Jakob á Grímsstöðum allt það sem er að frétta af mjer og er þjer velkomið að sjá það, þegar þið gétið komið því við, jeg vildi eitthvað segja í frjettum en hef nú fátt fram að tína, það helzta að næstliðið sumar var fjarskalega votviðra=samt einkum fyrripartin, en þornaði eptir sem áleið, og haustið varð gott, þó nokkuð stormasamt. Vetur afbragðsgóður til Jóla aðeins gránaði þrisvar en tók upp aptur svo alrautt var um jólin, svo gránaði milli jóla og Nýárs þó optast hreinviðri, og nú er snjór í ökla, það hefur nærri því þótt mein að Snjóleysinu hjer í vetur, af því menn þurfa að aka að sjer heyi og ýmsu öðru, mest frost varð í October þann 23. og 28. og 31. 4° á Réaum en mestur hiti þann 11. og 20. 11°R. í November varð mest frost þann 28. 14°R. mestur hiti þann 10. 7°R. í Decemb: varð mest fr. þann 1. 13°R. mestur hiti þann 23. 4°R. Það sem af er Januar hefur orðið mest frost þann 4. og 6. 26°R. í dag mest fr. 11° en minst 2°R. hiti hefur komið einusinni í þessum mánuði þann 11. þá var 5° fr. mest og 2°hiti mestur

Nú erum við ekki prestlausir lengur, því við höfum 2 presta Sr Jón Bjarnason og Pál Þorláksson, hann er nú orðinn Sinodu prestur, og búinn að breyta dálítið trú sinni frá því sem jeg íminda mjer að hann hafi lært heima, hann hefur tekið sjer söfnuð út af fyrir sig, af Íslendíngum sem eru kallaðir Pálistar, en hinir sem fylgja vilja Sr Jóni eru kallaðir Jónistar og þeir eru fleyri, allir Pálistar verða að trúa því og álíta að þeir hafi þá einu, sönnu, og rjettu trú, þó þeir verði að álíta sem víst, eður að minsta kosti efamál að þau börn sem deyja Óskýrð verði sáluhópin, - en jeg held, að þegar á að fara að hafa þessa skoðun, að þá sje orðið mál að "rífa stafninn úr Helvíti„ og er þá held jeg næst að hleypa Sinoduprestum á vaðið, - já, þeir fylgja svo járnfast Ritningunni að þeir meiga í trúareglum sínum að þeir meiga til með að trúa því, að Sálin gángi Kríngum jörðina, en jörðin standi kyr, og ekki má nú grafa Pálista og Jónista í sama Kyrkjugarði ef alt á að fara með felldu "en það gjörir nú Jónistum greyjunum ekkert til„ það yrði oflángt mál í þessum miða, að tína fram allar þær kreddur sem þeir skulu taka fyrir óskeykanlegann sannleika sem þessa (mjer liggur við að seigja steinblindu) trú hafa

Skilaðu kærri kveðju minni til Föður þíns og seigðu honum, að hann skuli nú ennþá reina að búa til Kartöflu garð, og velja ekki sem hálendast eður þurlendast að hægt er heldur aðeins þurt og lítið eitt hallandi móti sóli , flytja svo í hann 4 - 6 þuml: þikkt lag

af Kúamykju, ekki svo nýrri að hún sje blaut, og varast að moð fari saman við hana, því þá er hættara við arfa og illgresi, síðan "grobba„ upp jörðina með "grobb hoe„ (grobb hóf, eins og alment er nú kallað hjer, og að grabba upp jörð er sama og höggva eður pæla, með þessu nytsama og hentuga tóli, það er svipað óboginni Skaröxi augað er kringlótt og víðara að framan en aptan svo betur tolli á skaptinu, skaptið á að vera sívalt á digurð við stafstaung og álíka lángt og stutt kláruskapt, blaðið á að vera stálsoðið og vel sterkt upp við augað, - með þessu verkfæri ber maður upp jörðina, líkt og þegar barið er á velli með kláru, Árni á Einarsstöð: er viss að géta smíðað hófinn sem er ómissandi eign fyrir alla sem nokkuð stunda garðrækt). - og gjora smáhrúgur úr moldinni á stærð við smátt lausaríli af hrárri töðu, þó nokkuð flatari, og sjeu 2 álnir frá miðpúnkti á einni hrúgu til annarar á hvern veg (það er að skilja: til miðpúnkts á þeirri nnæstu) svo er mátulegt að láta 2-3 kartöplur sem eru á stærð við rjúpu egg, vel 3ja þumlunga djúpt ofan í hverja hrúgu, og hylja síðan yfir með moldu, sem ekki er áríðandi að mylja mjög smátt, betra er að vökva yfir hrúgurnar eptir sáninguna ef þurkar gánga, þessi aðferð er ekki einúngis sú lángfljótasta, heldur hefur reinst sú bezta uppá sprettuna, miklu betra er á sá svoköll=uðum Snemmvöxnu kartöplum, (Early Rose) (frb. erlý rós) sem eru aflángar, og hafa bleykari lit en þær höttöttu, þegar grasið fer að koma upp talsvert þarf að hófa uppað því og húgunum það reinist svo hjer, að mest gras, einkum með gyldum leggjum, er vottur um góða sprettu á kartöplunum sjálfum, mikið ómissandi væri að reina að sá til Kálhöfða, og

vita hvert ómögulegt væri að þaug spryttu heima svo ágjæt garðjurt sem þaug eru, þeim þarf að sá snemma í Vermibeð, eður kassa sem blandað sje saman 2 pörtum af svartri mold, móti 1 parti af þurri og smátt mulini kúamykju, planta síðan út, þegar talsvert eru uppkomin, og vökva og hirða um eins og næpur, en planta þeim miklu gisnara, en af því að jeg hverki sá nje heyrði gétið um Kálhöfuð (Cabbage) eður Kálhöfða fræ heima, ætli jeg að láta fáein korn af fræi þessu inaní miða þennan, ef skje kynni að heppnaðist að þaug kæmust alla leið, og ef það verður þá færðu föður þínum þaug, mikið glaður yrði jeg ef hann vildi reina þetta sem jeg hef talað um, og ekki síður ef það gæti komið nokkru liði, og væri gott ef fleyri vildu reina þetta, það hefi jeg ímindað mjer að Faðir þinn hefði gaman af að sýsla við að sá garðtegundum hjerna, þar sem til eru milli 30 og 40 tegundir af þeim, Jeg hefi opt óskað að hann væri með öllu sínu horfinn híngað, og Sr Benid: í Múla, og Halldór=staða bræður, en jeg hef ekki óskað þjer frændi híngað, af því þú ert svo heislutæpur, og líklega ekki nógu efnaður til að byrja búskap hjerna. Værirr þú annaðhvert velríkur eður vel hraustur vildi jeg feginn óska þjer híngað líka með hinum.

Berðu kæra kveðju mína í Halldórsstaði og svo til allra í Laxárdal, jafnvel hraunklettunum og lækjunum líka, Mjer er nú farið að leiðast að fá ekkert Brjef að heiman, og bið þig því nú að skrifa mjer til með fyrstu ferð!

Vertu með öllum þínum frændum og vinum falin Guðs vernd á hendur um tíma og eylífð.

Þinn frændi

Benedikt Arason

Adressi mitt það rjetta gétur þú fengið hjá Jakob á Grímsstöðum

Myndir:123