Nafn skrár:ThoSte-1918-02-18
Dagsetning:A-1918-02-18
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Húsavík
Safnmark:E-728-5
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:frá ákb

Bréfritari:Þórarinn Stefánsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1865-02-07
Dánardagur:1949-03-13
Fæðingarstaður (bær):
Fæðingarstaður (sveitarf.):
Fæðingarstaður (sýsla):
Upprunaslóðir (bær):Haganesi
Upprunaslóðir (sveitarf.):Skútustaðahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-Þing.
Texti bréfs

Winnipegosis

Febr. 18 1918

Elsku systir mín!

Það er nú víst meira en ár, síðan eg skrifaði þér, og eg þó búin að fá 2 bréf frá þér síðan, annað n.l. vor og hitt í haust s.l. og því vissulega mál komið að reyna að svara þeim; minnsta kosti þakka ærlega fyrir þau, og það gjöri eg nú með þessum miða; sem eg vona að þú fáir, og veiti þér stundaránægju, en fréttasmár verður hann hugsa eg, því það er svo erfitt fyrir mig að vita hvað helst eg ætti skrifa þér og ykkur héðan úr landi sem ykkur er svo ókunnugt og þess vegna verð eg altaf að snúast í kringum sjálfan mig, enda máské hentast fyrir mig, orðin því svo vanur að standa í sömu sporum, minnsta kosti andlega; svo skrifaði eg Stefáni br. okkar snemma í vetur og ætti það að hafa náð heim fyrir jól, hvað sem verður nú um þetta því nú nú hvað Þjóðverjinn? vera farinn narta í ýslendska skipastólinn svo um munar eftir því, sem blöðin síðustu segja; ilt er illur að vera, og því lenda öll nútíðar skammheit á þeim en hvað voru hvað voru þau að fara Botnía og Sterling og hvað höfðu þau innanborðs? Liklega hafa þau siglt undir Dannebrogs

hátigninni; ojá, leitt að íslendingar skyldu ekki gleypa við ”millilanda frumvarpinu„ sæla, þá hefðu þeir þó sjálfsagt verið búnir að fá, sinn eigin siglingafána!! En svo líka þetta, þegar íslendingar k tóku uppá því andstyggtareinræði að sækja nauðsynjar sínar til amirku, í stað þess að svelta við sama borð og Danir sjálfir; það var ekki mikill bróðurkærleikur í slíku; og þó held eg þeim geðjist ekki að þeirri hugmynd, að ýslendingar ættu að segja nú skilið við þá fyrir fult og alt, eins og nú heyrist að liggi nú beinast fyrir; en svo á þessari hetju öld gæti maður freistast til að ætla að Danir ættu enn í fórum sínum einhverja, sem fúsir væru að sækja nýjan Kópavogsfund!

Ekki hváðu þeir hafa tekið nærri sér að neita um löggildings fánans; það virðist þó ekki mikil sanngirni í því, og ástæðan hvað vera sú að athug enn á ný samband landanna frá rótum, eg hélt nú reyndar að það mál ætti; nú orðið, að vera bæði ýslendingum og Dönum sæmilega ljóst; eftir að vera búnir að þræta um það í minnsta kosti hálfa öld uppihaldslítið, og búið að kosta millíjónir króna. Líkleg hefði þó verið hættulaust fyrir Dani að leyfa íslendingum að sigla undir sínum eigin fána, með- stríðið stendur yfir; eins og sjáanlega var nauðsýn en svo hafa íslendingar ekki farið frám á það og ekki heldur í samræmi við þá stefnu að slíta

sambandi landanna, nú hreinlega.

svo held eg ætti nú ekki að rausa meira um þetta, því það er víst ekki mikil stjórnviska í því.

Þá er að minnast á tíðina í vetur; það hafa verið mikil frost og stormar en ekki mikill snjór eða opt verið meiri nóvemb. var einstaklega mildur; en með des. fór að kólna fyrir alvöru og síðan lítil linun fram á þennan dag samt hafa frostin ekki verið eins aftaka mikil í þessum mánuði; og þegar ekki eru stormar þá vermir sólin dálítið um miðdaginn, en sú er bót í máli að flestir minnsta kosti hér í kring hafa nóg hey, og þá segjum við gömlu jálkarnir að vetrarharðindin geri hvorki til né frá; enda eitt hið allra hörmulegasta, sem fyrir getur komið að hafa ekki nóg til að seðja hungur auminga dýranna sem maður á að annast; ”eg veit hvað svöngum vetur er; Þú veitst það máske líka„

Jón máður Helgu okkar og Stebbi minn voru saman norður á vatni að fiska, en eru nú hættir. þeir fiskuðu nokkuð vel, um $ 1200 virði til samans. núna er Stebbi að hjálpa J til að byggja nýtt hús í bænum Winnipgosis, svo ætla J aftur að hjálpa ogkkur að flytja hús sem Stebbi keypti af árna mágji sínum og ætlar að setja það á land sem mér tilheyrir hér skammt frá og sem við þá líklega flytjum í í sumar, því húsin sem við höfum búið í eru orðin léleg og standa á stjórnarlandi, og nú er alt útlit fyrir að Stefán verði að fara í herinn um miðjan næsta mánuð, að vísu fá margir undanþágur en maður veit allrei hverjir verða fyrir því og hverjir ekki

árni og olla eru flutt til Winnipeg og hann gengur þar á skóla, til að læra að stjórna vélum; Þau eignuðust dóttir 17 nóv. s.l. sem heitir Grays Ingibjörg

Stína fór til nöfnu þinnar um nýjárið; því Bogga varð þá snögglega veik, en er nú orðin frísk aftur, og við búumst við Stínu heim í byrjun mars. Stína varð 19 ára 4 januar; hún er drífandi og efni í bestu búkonu. Skóli á að byrja hér í byrjun mars. Nýan kennara frá Winnipeg höfum við ráðið; Islendsk stúlka, og heitir Lára Sigurjónson, gátum ekki fengið aftur stúlkuna sem kendi hér í haust, og þótti okkur það slæmt, því hún er ágætur kennar, þó hún sé nú ekki nema um 17 ára gömul; hún heitir Lilja Stephanson foreldrar hennar ættuð úr Eyjafirði; máské lýsi henni meira fyrir þér í næsta bréfi.

Það er 19ndi Frúar klukkan 8 að kveldi, Það hefur verið norðan froststormur í dag en ögn að kyrra núna en höfum þurft að kynda ofnana í allan dag af kappi. Lína er að sjóða grjónamjólk á öðrum ofninum í kveldmatinn, höfum það opt í kveldmat ásamt öðru sem létt er að melta, meðan maður sefur; á morgnana fyrst kaffi síðan þegar búið er að mjólka kýrnar höfum við haframjólsgraut og sikur og nýmjólk úta og svo brauð og stundum þá saxað kjót og kartoplur blandað saman; í maðdagsmat, annað hvort steikt kjöt og kartoplur eða þá fisk og kartoplur stundum kjötsúpu eða baunir og þa0 borðuðum við í dag

og álít eg það þó miður holt að borða mikið af þeim aðra eins stormdaga; ”skjólgóður matur baunir„ kaffi brúkum við stöðugt 3svar á dag og stundum oftar er gestir koma, sem ekki er mjög oft því við erum ekki í þjóðbraut, helst á sunnudögum og þá kannske margir í einu aðra daga koma fáir hér; bjóðum sjaldan fólki að heimsækja okkur eins eins og margra er siður; finnst ekki okkur farast það og eigum því ekki eins marga vini og sumir aðrir, höf- n.l. aldrei eignast vini á þann hátt, eigum samt hér og víðar nokkra einlæga og trygga vini; en höfum ekki eignast þá með smjaðri eða gjöfum.

21 febr. Jóhann er að tala um fara til bæjarins á laugardaginn kemur og þá þarf eg að senda þetta. og Lína segir að eg muni fá bréf að heiman helst frá Helga á Grænavatni, því hana dreymdi á mánudagsnóttina var, að Helgi og Kristín og Jana dóttir þeirra væru á skemmtifer hér vestra, og að þau hefðu komið með Gullfoss í haust, sem leið og væru nú rétt að segja komin til okkar.

Segðu Balda eg biðji hann að senda mér vísurnar, sem hann orti til St G Stephánsonar. Eg sendi einusinni 2 vísur eða vers til hanns í Kringlu eg held það hafi verið haustið 1910 en er nú búin að gleyma þeim, enda ekki neitt skáldlegar Já ekki má eg gleyma að þakka Þuru fyrir bréfmiðann og vísurnar. Eg sá í Heimskringlu vísu tekna úr Iðunn, og eg eignaði Þuru hana þó enginn væri undir henni; hún er svona

”ástarguðinn, útí hött

alla samanbindur.

Hann tengir saman tóu og kött

Því tetrið hann er blindur„

Ef hún er ekki eftir Þuru, þá er þó tungutakið býsna svipað; en eg ætti að hafa mannrænu í mér og skrifa henni, því hún sendi mér nokkrar línur sem eg hafði kálfgaman að.

Mig minnir þú hafir sagt mér í bréfi að þú hafir les00ð lesið bókina: ”Trú og Þekking„ eftir séra Fr. J. Bergmann; og nú hef eg líka lesið hana, með mestu ánægju, því hún er bæði fróðleg og vel samin og þó mótstöðumenn hanns (enkum hér vestra) hafi stimplað hann argasta trúvilling; þá sjá allir, sem vilja sjá, að andi höfundarins er gegnsýrður af sannleiksþrá og einlægri trú; trú sem er meira en tomt orðaglamur, trú, sem hefur heilbryggða skynsemi, alstaðar nálæga, eins og vera ber; Því sem betur fer er nú orðið; skynsemistrú ekki lengur gjaldgengt, sem niðrun, og hvor ætti líka skynsemin, (hín dýrmæta drottins gjöf) betur að njóta sín en við hlið trúarinnar, og fyrir hvað dást menn að kenning krists nema af því að hún er hrein skynsemi; og, ”Von (að) er mönnum miklist þrótt; mannúð hans og speki„

Ögn langar mig til að minnast á minnast á kvæðin og vísurnar sem þú sendir mér Kvæði S. á Arnarv eft séra Arna er gullfallegt; þannig finnst eg hefði viljað minnast

Séra Árna, ef eg hefði haft tungutak til þess, því þó eg kynntist ekki lengi, prédikunarmáta hanst þá var mér hann mjög geðfeldur, enda var andi hans að mér virtist, víðsýnn og varmur og sjálfum sér trúr. Vísur Jóns Þorst á Arnarv. ”Blíðara fegurra kveldi ei kynnist„ þykja mér ágætar, að eg ekki nefni spaugvísurnar, en líklega gleymast þær ekki svo glatt, svo eru þær neyðarlegar.

nú er kominn 26ti febr. og bréf þetta hjá mér enn því eg var ekki búin með það þegar eg fór til bæjarins á Laugardaginn, fór sjálfur því veðrið var svo gott var nóttina hjá Helgu minni, og hafði eg þá ekki komið til bæjarins síðan snemma í sept í haust Skólin hér hjá okkur á að byrja á föstudaginn kemur og og verður kennt þangað til 15nd júlí 5 kennsludagar í viku, alla sunnudaga og laugardaga frí; skólin byrjar kl. 9 að morgni og hættir kl. 4 eftir miðdag; kaup sveitakennara hér, er frá 60 til 75 dollarar á mánuði og sýnist það lífvænlegt, en svo þurfa þeir að borga af því fæði sitt og þjónustu, en hafa frítt húsnæði.

1 mars. Skólinn byrjaði í morgun, bliðuveður nú á hverjum degi. Bókina sem Árnína ætlar að senda Árnþóri, ætla eg ekki að senda með þessu bréfi af því að eg vildi ná í almanakið hans Ó.Thorgsonar og senda þá bækurnar saman, en þetta vona eg leggi á stað á morgun; við m000 erum bara 3 heima í dag við gömlu hróin og Jóhann.

Kristjana Árnína og Björn á skólanum;

Ekki hef eg frétt neitt af Árna og Sollu lengi, sem ekki er von, því eg hef trassað að skrifa þeim, en fékk prentað bréfspjald frá þeim í sumar með nöfnm dóttur hans og mans hennar; er víst enskur eða minnsta kosti ekki íslendingur

Aldrei hef eg fengið bréf frá Dóra, síðan hann flutti að Kaðalstöðum.

Nú er Kristja Hallsson lagstur til hinnstu hvíldar, dó í haust s.l. 102ja ára 2ja mánaða og 2ja daga, dó hjá Ólufu sinni, en svo hef eg máske minnst á þetta í Stefáns bréfi; enginn hefur mælt hér eftir hann; en gaman hefði verið að vita hvort G. á Sandi, vildi ekki semja gagnorða drápu eftir hann, en þó býst eg við að G. hafi verið mjög ungur þegar Kr. fór hér vestur, eða á sama skipi og eg 1899 en nú man eg samt að hef G. hefur einhverstaðar, (eg man nú ekki hvar) sagt sitt af hverju um það þegar Sigurbjörn heitinn skáld var að leggja útí þá ferð, og hann var einnig samferða maður okkar þá; og víst múna margir Reykdælir eftir Kristjani, og þó hann væri 000 ekki talinn neinn afburðamaður andlega þá var hann það, því meir, líkamlega; til d. var heilsa hans óbilandi fram að síðustu dögum. lundin létt og kjarkurinn ódrepandi.

Vertu sæl elsku systir og hjartans kveðjur til allra bræðra minna; guð og gæfan gefi ykkur öllum, gott og hagstætt ár; biður aðf hjarta þinn einl elskandi br. Thorarinn Stephánsson

Myndir:12345678