Nafn skrár:ThoSte-1920-12-28
Dagsetning:A-1920-12-28
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Húsavík
Safnmark:E-728-5
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:frá ákb

Bréfritari:Þórarinn Stefánsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1865-02-07
Dánardagur:1949-03-13
Fæðingarstaður (bær):
Fæðingarstaður (sveitarf.):
Fæðingarstaður (sýsla):
Upprunaslóðir (bær):Haganesi
Upprunaslóðir (sveitarf.):Skútustaðahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-Þing.
Texti bréfs

Winnipegosis Man.

Desember 28. 1920

Húsfrú Guðbjörg Stefansdóttir

Garði við Mývatn

Elsku systir!

Það er orðið ærið langt síðan eg skrifaði þér síðast Eða ekki síðan seint í janúar s.l. 27 maí fékk eg bréf frá þér og sendi nú loksins hjartanlega bróðurkveðju og bestu þakkir fyrir það. Lína hefur smásaman verið að senda þér; Heimskringlu; en veit ekki hvað þú hefur fengið af henni. En ætlar nú að hætta að senda þér ”Stjörnuna„ fyrst þér geðjast ekki að henni.

Mig minni endilega að eg skrifaði Stefáni bróður okkar í sumar, en hef ekki skrifað það hjá mér, sem eg hef þó ekki skrifað hjá mér eins og eg hef þó gert nú í seinni tíð. Þura frænka skrifaði mér fjörug og gott bréf (með smá rúsínum í) frá Hvanneyri og 14 s.l. mánaðar skrifaði eg henni og skrifaði utaná það að Garði; og ekki ómögulegt að það sé nú komið til skila; og síðan hefur ekkert breytilegt borið við hér hjá mér, og mínu fólki; erum öll við góða heilsu að kall má; samt hefur Lína ekki verið vel frísk núna um tíma, og liggur víst gigt í höfðinu á henni og máttleysi; það eru víst ein 2 ár síðan hún tapaði að mestu heyrn á öðru eyranu af meini sem hún fékk í hlustina og núna er hún með lakara móti með heyrnina; vonum þó að það sé þó ekki það að hún ætli að missa heyrn alveg líklega er það gigtin sem er nú að þjá hana þar núna

Því hún er sjaldan frí við hana, nú í fleiri ár. Heilsa mín er allgóð, og þjáist sjaldan af gigt enkum nú síðustu árin, samt er 00 eg þollaus við erfiða vinnu, sem eg nú orðið, hef lítið með að sýsla; síðan drengir okkar komust á legg, losa þeir þeir mig við alla áreynslu. Þeir voru báðir heima að mestu í sumar, en þegar heyannir luku voru þeir í smíðavinnu með Jóni mági sínum en síða veturinn kom hafa þeir veð verið við fiskiveiðar 15 mílur hér norður með vatninu, en koma heim einu sinni í hverri viku og draga þá heim hey til vikunnar og fara í kaupstaðinn, Björn sá yngsti hjálpar mér við að hirða skepnurnar; þegar hann er ekki á skólanum. Kristjana og Arnína hjálpa mömmu sinni í húsinu Kristín er hjá systir sinni Suður í Minnisota.

Við höfðum skemmtileg jól. fengum öll jólagjafir og höfðum jólatrél með tilbúnum blómum og mörgum jólakertum eg spilaði á Orelið 2 jólalög og börnin öll sungu með, drukkum svo kaffi og sætabrauð með og einn tengdasonur minn gaf mér 1 flösku af Coníak á jóladagskvöldið buðum við til okkar nagrannafólki úr einu húsi, og unga fólkið skemmti sér við söng og fleira til gamans þangað til um miðnætti. svo bauð hitt fólkið okkur að koma til sín á annardagskveld og fórum við þangað öll og skemtum okkur vel. Tíðin hefur verið mjög mild framan af vetrinum en samt nokkuð hörð frost núna um jólin en aftur milt veður í dag og lítill snjór. og er það mikill munur eða í fyrra, sem var sá lengsti og vesti vetur sem eg hef lifað í þessu landi.

Fréttir get eg ekki sagt þér sem eg héldi að þú let00 létir þig varða. Samt skéði; hér nálægt, sorglegt dauðsfall, sem var það, að sonur gamalls nágranna míns dó úr krabbameini 26 nóvember s.l. aðeins 23 ára og hef eg máské minnst á að hann væri veikur í bréfinu til Þuru; hann var búin að vera leikbróðir okkar barna í s.l. 14 ár og góður og vel látinn piltur. Foreldrar hanns eru ættuð af suðuríslandi.

Drengir okkar, Stefán og Jóhann voru fengnir til að bera hann til grafar ásamt öðrum 4 ungum mönnum því það er siður hér að, ungir menn beri ungt fólk, sem deyr til grafar en eldri menn aftur sína líka, að aldri - og kann eg vel við það.

Þessi ungi maður var jarðsettur 1 þessa mánað, eða á afmælisdaginn hennr nöfnu þinnar. Við fórum þangað hjónin þurftum að leggja á stað í dögun því hann var jarðaður í bænum Winnipegosis og þangað eru 15 enskar mílur samt fórum við heim um kvöldið, því heima voru bara 3 yngri börnin.

Ekki veit eg nú hvað eg ætti nú að minnast á næst til þess að lengja bréfið með, því mér finnst altaf að eg þurfi að skrifa löng bréf, þegar eg skrif heim; svo umbúðirnar nái þó ”vættinni„ þó sálarfóðrið í þeim verð verði bara ”tæpt lóð„ í staðinn fyrir að standa í járnum tæpir 2 fjórðungar og 2 merkur, eins og haft var eftir J. heitnum frænda.

Við höfum hér lestrarfélag samt er fáir meðlimir þess og ekki fjölskrúðugt, Nýjar íslendskar bækur eru hér altaf seldar með ránsverði og og nú þó meira en

helmingi dýrari en áður.

2 nýlegar sögur höfum við þó eftir E. H. Kvaran Sambýli og sögur Rannveigar (byrjun) á Báðar þær sögur líka mér mjög vel, eins Sálin vaknar„ eða sún sem þú sendir Þuríði frá Gautlönum. Mér finns þessar senni sögur E H. taka hinum fyrri mikið fram.

Nýlega hef eðg líka lesið, ”Trú og sannanir„ og ”Líf og dauði„ og síðast og ekki síst bókina ”Útyfir gröf og og dauða„ Hafði mikla skemmtun af að lesa þær allar og finnt ekki að þær hafi sáð neinu íllgresi í hjarta mitt; enda er þar er þar líklega ekki um mikið gróðrarmagn að ræða hef aldrei verið neinn sérlegur trúmálapostuli; Flest þess konar farið ut00 ”innum annað og útum hitt.„ En þó þetta sé máské léttúðarlega sagt, þá er ekki svo að skilja, að eg ekki beri virðing fyrir því sem er fagurt og göfugt í trúarlífi manna ekki sist þeirra fáu, sem eg hef mætt; og virðast í allri sýna einlægni, sýna trú sína í verkinu. Þar er óefað þungamiðja; sálu hinna svokölluð sáluhjálparmeðala; en því miður eru þeir alt of fáir, sem leggja sig fram að bregt samkvæmt því besta og göfugasta í kenning Krist; og sjálfur er eg meðal þeirra mörgu. Eins og þú veist er eg nú bráðum 60 ára karlsköggur og ætti því að vera kominn tími til fyrir mig að fara að hugsa alvarlega um sáluhjálp mína og til að byrja með orti eg vísu fyrir stuttu; Eg hef víst aldrei sagt þér hvað eg er skáldmæltur!!!

Lengi hafði eg Lúterstrú,

Litlu seinna enga trú

Náð'i, um skeið, í ”Nýja„ trú

Núna les eg Adndatrú.

Góða nótt elsku systir!

Konan og börnin eru farin að hrjóta uppá loftini og kl. orðin hálfellefu, og þig máské farið að dreyma um morgunkaffið.

29. að kveldi, drengir mínir rétt komnir heim og ætla með fiskæki í kaupstaðinn á morgun og ef þetta á að ná í Lagarfoss, sem sagt er að eigi að koma verstur núna bráðum þarf eg að senda þetta núna.

Með þessu sendir nafna þín þér myndir af börnum sínum; nöfn þeirra eru skrifuð á myndirnar.

Það var leiðinlegt að þið fenguð ekki myndirnar af Jóhanni og Árninu, því þær voru mjög líkar þeim

Sigurgeir Pétursson er víst heima enn þá, eða ekki hef eg heyrt þess getið að hann vari kominn aftur.

2 nýjar ljóðabækur eru að koma út hér; aðra þeirra hef eg séð, ”Bóndadottir„ eftir Guttorm J. Guttormsson Best lætur honum að yrkja um það sem er skoplegt Hann gaf út ljóðakver fyrir nokkrum árum sem hann kallar ”Jón Austfirðing„ það eru söguljóð um efnaðan bónda er bjó í Fljótsdal á ísland, og undi vel hag sínum þangað til, stjörnarsmali hér að vestan heimsækir hann ol og hellir í hann af úr lofgjörðarskjóðu sinni um Canada, og bóndi flytur vestur en ógæfan eltir hann eftir að hann kemur hér á allar lundir og af því þú hefur víst aldrei

verið mjög hrifinn af vesturferðum þá hugsa eg að þáað væri þér geðfelt að lesa þá bók og máské búin að því. Svor er núna verið prenta Ljóðabók eftir Kristján Július, (K. N.) Óefað mesta háðskáld meðal íslendinga bæði heima og hér. En g sá galli er á morgum vísum hans að þeir, sem ekki skilja ensku. hafa þeirra ekki full not, því enskusletturn eru vanalega yms spaugyrði; og falla optast svo neyðarlega inní, og um leið gott sýnishorn af vesturílensku

Svo er nýlega komin hér vestur kv nýtt kvæðakver eftir St G. Stephansson ”Vigslóði„ gefin út heima hef ekki fengið hann enn þá en víst er hann ekki kveðinn í anda Lögbergs eða Kringlu eftir því sem Þau lýsa honum, kemur líklega óþægilega við kaun þeirra og annara hernaðarvindstakka og telja hann víst nokkurs konar landráðapésa. Kringla t.d. bendir á það í athugasemdum sínum að menn verði að gæta þess að ”það sé Bretskur þegn„ sem kveði þetta; eftir því, ætlast hún ætlast hún til að lesendurnir biðjist fyrir lesi kongsbænalestur sér til styrkingar, á undan og eftir lestri Vígslóða. En Stepán er fær um að svara fyrir sig og fáum mún létt að sækja gull í greypar hanns; enda sýndi það sig greinilega í Minnisvarði málinu í fyrra, og honum má þakka meira en nokkrum öðrum að sá draugur var draugur var kveðinn niður; en stórbokkarnir eru honum stórreiðir, síðan; hjá þeim er enginn maður með mönnum sem ekki er fullur útblásinn af hernaðar-vindi.

30 Des.

Þetta verður líklega seinasta bréfið, sem eg skrifa á þessu ári, og má því ekki verða mjög endaslept Eg lauk ekki við það í gærkveldi einsog eg ætlaði drengir mínir fóru til bæjarins í morgun og koma víst ekki fyr en annaðkveld. það er nokkuð langt að fara, það fram og til baka á dag með æki í skammdeginu. Á að giska, eins og frá Skútustöðum og útí Læki eða Geitafell; við höfum ekki fengð postinn síðan 2m dögum fyrir jól; fáum hjann sjaldan nema einusinni í viku.

Eg veit ekki hvort eg á minnast nokkuð á efnahag okkar og búskap; Þessi 2 síðust ár hafa verið fóðurfrek í meira lagi, (en þú fyrirgefur, þett er víst sérviskuleg málvilla) og skuldir meiri á heimilinu en vanalega því þó ekki sé keypt nema nauðsynja vara og tæpast það hrökkva inntektirnar ekki móti útgjöldum, og þá ”er hor í gróðri„ eins og skáðldið eitt segir.

Við S seldum yfir 20 gripi í sumar og fengum lágan prís fyrir þá í samanburði við það, sem þurfti vera því nærri alt sem búendur þurfa að kaupa hefur verið í svo háu verði, að samræmi í viðskiptum óvíða að finna; nú á dögum, og mun svo víða vera. Við höfum því ekki núna nema rúma 40 nautgripi eða 26 færra enn í fyrra og ef þeir hækka ekki í verði bráðlega, seljum við meira af þeim; Reynd er núna einstöku vörur, aðkeyptar, ögn að lækka; til dæmir sikur og hveiti mjöl og fatnaður dálítið nema skór; þó eru húðir og öll öumin skinnavara sama sem enkisvirði. Gripahúðir voru í fyrra um og yfir 20 cent 0

en núna frá 3m - 5 cent. ull í fyrra 45 - 50 - núna 10 og jafnvel minna. Egg og smjör og tóvinna eru þó í nökkuð háu verði, en vafalaust bráðum verðlaust líka. Samræmislaust á öllum sviðum viðskiptalífsins.

Jæa, elsku systir mín! mér veitir ekki af heilli blaðsíðu fyrir kveðjur, frá okkur öllum, til ykkar- allra, og óskum ykkur gleðilegs árs, með ódauðlegri von um endurfundi; - hér, eða þar; eða hvar? Hvort það verður á Júppíter eða Vega, júppíter venús eða Mars, - líklega Mars. með öllum vatnveitinga skurðunum þar verður víst bærilegt engi!! og þar slá menn ekki hver uppá annan eins og stundum í Köldu spildu og norðan við kyrkjugarðinn á Skútustöðum;

En er best tala ekki mikið meira um þetta núnaa En óska stundum eins og gamla K. í H. ”að eg væri kominn þangað sem eg á að fara!!„

Vertu sæl elsku systir mín! og biðjum við öll hjartanlega að heilsa ykkur öllum mælir þinn og ykkar elskandi bróðir

Thór. Stephansson

E.S. Í ensku vikublaði sem gefið er út í bænum Kamsack þar sem nafna þín býr, stendur þetta nýlega ”Heimsýning í Reykjavík á Islandi verður opnuð í júní 1921. Það er stórt fyrirtæki hjá svo fámennri þjóð, sem telur um 100,000 ibúa, mest bændur.„

Trúi hver sem vill!!

Myndir:12345678