Nafn skrár:EinAsm-1868-02-10
Dagsetning:A-1868-02-10
Ritunarstaður (bær):Nesi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):S-Þing.
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:ÍB 95 fol. a
Nafn viðtakanda:Jón Borgfirðings Jónsson
Titill viðtakanda:bókbindari
Mynd:irr á Lbs.

Bréfritari:Einar Ásmundsson
Titill bréfritara:bóndi
Kyn:karl
Fæðingardagur:1832-06-21
Dánardagur:1897-10-20
Fæðingarstaður (bær):Vöglum
Fæðingarstaður (sveitarf.):Hálshreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Rauðuskriðu
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-Þing.
Texti bréfs

J.Bergf. Nesi 10. febrúar 1868

Kæri vinur!

Jeg þakka þjer ástsamlegast fyrir þitt góða brjef í fyrra vetur og aðra góða viðkynningu. Þó jeg hafi nú lítið sem ekkert að skrifa þjer þá þykist jeg ekki mega annað en koma á það einhverju nafni, rjett til að láta þig vita að jeg lifi, og að mjer líður þetta hjer um bil eins og þegar þú þekktir til. Með póstinum seinast fjekk jeg brjef, sem mjer sýndist mundi vera frá þjer, en ekkert var í því nema boðsbrjef að kaupa nýtt blað, sem eitthvert fjelag í Rvík ætlaði að gefa út. Jeg verð nú að álíta mjög mikla þörf á að annað blað komi út í "Hoveðstaðen Reykjavig" með fram Þjóðólfi vorum og jeg vildi gjarnan styrkja til að það gengi hjer sem bezt út; en jeg álít það ekki sem hyggilegast fyrir þá, sem vilja byrja á útgáfunni að nafngreina sig ekki því menn vilja svo bezt styrkja blað, að einhver vissa sje fyrir því að í það verði ritað af mönnum, sem færir eru til þess. Jeg vil nú ekki efa að í þessu heimuglega fjelagi sjeu góðir menn, en þó vantar mig alla vissu um það, því jeg trúi ekki svo á Reykvíkínga að mjer

nægi að vita það eitt, að útgefendurnir sjeu þar. Á þetta boðsbrjef sem mjer var sent er búið að skrifa sig fyrir 8 expl. og vel getur verið að við það bætist ennþá, en eins og þú sjerð, er ekki gott að mæla fram með blaðinu þegar maður veit ekki hverjir fyrir því standa Það gefur jafnvel grun um að það sjeu engir kjarkmenn að minnsta kosti, sem eru svo óframfærnir að nafngreina sig ekki, þar sem þeir þó ætlast til að fá dálítið af verði blaðsins fyrirfram. Jeg vildi ráða þessu góða fjelugi til að vera dálítið djarfara og bezt þætti mjer að það byrjaði útgáfu blaðsins undireins eða að minnsta kosti með sumrinu, því fyrst er þörfin á blaði mjög svo mikil, og í annan stað er ekki fyrirhöfnin eða kostnaðurinn við ekki stærra blað svo mikill að þetta sje ekki kleyft fyrir heilt fjelag manna, ef í því eru ekki tómir vesalingar. Verði blaðið vel ritað mælir það undir eins betur með sjer en nokkurt boðsbrjef, og ónýtt er að bjóða mönnum ónýtt blað. Ef þú ert nú annaðhvort í fjelaginu, eða erindareki fyrir það, þá hvettu til þess í öllum bænum, að fljótt og

vel verði byrjað??? Við þurfum að fá upp þjóðblað, og mjer þætti vel til fallið að margir menn út um landið væru í fjelagi að gefa það út og kosta. Það væri bágt ef ekki væru á landinu svo margir menn sem þetta vildu, eins og mörg yrðu númerin í árganginum, og það væri þó ekki ákaflega mikið fje sem hver hefði í hættu með því lagi. Engar frjettir get jeg farið að skrifa þjer hjeðan því jeg vona að aðrir gjöri það, og svo getur nú verið að gamli Björn ungi út einu Norðurfarablaði áður en pósturinn fer því hann ernú búinn að hvíla sig býsna lengi, en jeg vona að karlinn hafi heldur en ekki lifnað við þegar hann fjekk sjer konuna nýju. En þó jeg skrifi ekki frjettir, þá þætti mjer óvenjulega vænt um ef þú vildir skrifa mjer frjettapistil úr Reykjavík, jeg er reyndar nokkuð framandi í þeirri Jerúsalem, en hef þó gaman af að frjetta þaðan. 17. Febr. Blaðið að tarna hefur nú hvílt sig heila viku og síðan hef jeg fengið 1 expl. af Baldri, 1. blaði. Mjer líkar það í meðallagi, ekki sem verst og ekki sem bezt, það er nokkuð stuttara legt eins og við köllum hjer.- Jeg kritíæra nú svona, af því mjer er annt um að blaðið geti þrifizt því jeg er hvorki í vinfengið við Þjóðolf nje Nfara.

Það verður (grun???) ópraktiskt að heimta verðið fyrirfram í f???skömtum, þegar póstgöngur eru svo strjálar og óttalega óvissar og óreglulegar Nú fer t.d. enginn póstur og menn koma ekki neinu nema máske smáseðlum af náð.- Jeg hef skrifað mig fyrir 4. expl. og Ólafur í Hringsdal fyrir 4. En jeg get ekki fengið senda peninga, og því sendi jeg heldur ekki boðsbrjefið.- Mig langar mikið til að biðja þig að útvega mjer Kvæði Tegnérs, og gildir mig einu þó það væri brúkað exemplar. jeg veit að bækur má fá stundum með góðu móti hjá hinum ungu vísindaiðkendum. Fyrirgefðu þó þetta blað sje stutt; jeg er núna svo lasinn að jeg á bágt með að skrifa.

þinn einlægur vin

Einar Ásmundsson

Myndir:12