Nafn skrár:GunOdd-1893-05-14
Dagsetning:A-1893-05-14
Ritunarstaður (bær):Glasgow, Skotlandi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Aðföng 11.12.2000
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Gunnlaugur Oddsson
Titill bréfritara:smiður,bóndi
Kyn:karl
Fæðingardagur:1854-03-18
Dánardagur:1931-03-21
Fæðingarstaður (bær):Keldunesi
Fæðingarstaður (sveitarf.):Kelduneshreppur
Fæðingarstaður (sýsla):N-Þing.
Upprunaslóðir (bær):
Upprunaslóðir (sveitarf.):
Upprunaslóðir (sýsla):
Texti bréfs

Frá 14 maí til 22. Oktober

Selkirk West 14 mai 1893.

Elskulegi nafni minn

Guð gefi þjer alla tíma gleðilega. Hjartanlega þakka jeg þjer fyrir brjefið þitt sem jeg með tók 15 april og mjer þótti mjög væntum því jeg var farinn að verða hræddur um veturinn mundi líða svo að jeg sæi ekki brjef að heimann en þá kom þitt góða og langa brjef sem jeg er í aungan máta fær um að borga eins og ætti að vera en þó ætla jeg að láta hugann fljúa heim til þín ofurlitla stund og skrafa við þig. þú spyrð hvert við munum aldrei sjást? þvi get jeg ekki svarað öðru en því að margt getur breist og þó að þjer finnist nú að þú ekki vilja fara til Ameríku þá geta þeir tímar komið fyrir að þú einhverra hluta vegna neiðist til og jafnframt viljir fara. en þó að þú færir hingað vestur er ekki að vita að þú sæjir mig bæði gæti jeg verið dauður og Ameríka svo stór að ýmsir frændur og vinir sjást að líkindum aldrei þó þeir sjeu komnir hingað vestur til að minda Björn Kristjánsson fór til Dakota og er mjög

ólíklegt að hann sjái nokkurn tíma Svein eða Sigfús (Sveinn kemur hingað stundum) þá spir þú en í öðru lífi ætli við sjáustum þar? því svara jeg „við þá von vil jeg búa" að við sjáustum í dýrðar ríki drottins á himnum. þú segir að framtíðin sje dimm fyrir augum þínum og með yfir standandi tíman sjertu óánægður. Framtíðin er óljós fyrir óljós fyrir öllum og að því leiti er hún jafn dim fyrir alla, en það eru ymsar misjafnar kringumstæður sem geta gefið manni betri framtíðarvon fyrir þessum eða hinum en það er einungis von en eingin vissa. Að vera óánægður með yfirstandandi tíman er alt of almennur breiskleykji, því skrifað er "hver sem er óánægður með sitt stand ásakar guðs útvalda og sínir í því mikla fávisku" og í sambandi við þetta ætla jeg að setja hjer seinustu hendingu úr vessi og næsta vess ur brjefi sem pabbi þinn sál. skrifaði mjer 10 jan. 1874 að Grenjaðarstöðum "Óánæja er sind" Margt fær manni gleði af miskun skaparans, því með glöðu geði, gegnum boðum hans góð samviska í glaðri ró himna ríki er hjer á jörð er helgur andi bjó

Jeg veit að það er fyrir fátæktina og ymsar erviðar kringum stæður að þjer virðist að framtíðin sje skuggaleg fyrir þjer. það hefur margur mátt við hana stríða (fátæktina) og mun svo verða lengst, en ef að maður reinir að fremsta megni að nota þá krapta sem drottinn hefur gefið manni, með skinsamlegri fyrir hyggju og hefur stöðuga trú á forsjón guðs. þá mun hann óhætt meiga segja þó efnin sjeu lítil „þetta mun drottin dyrstur mjer duga að sönnu láta„ Jonatan sálugi í Kl.seli sagði mjer að opt hefði hann grátið ifir skepnonum sínum á vorin þegar hann var heylaus (og hefur þá líklega átt lítið handa bornonum líka, og hann sagðist þá hafa beðið guða að hjálpa sjer og mjer finnst auðsjeð að guðs blessan hefur fylt þeim hjónum og blessað öll þeirra verk og viðleitni enda láu þau ekki á liði sínu að bjarga sjer og ala börnin upp í guðs ótta og góðum siðum.

Gott mannorð skal heldur kjósa en mikin auð vinsæld er betri en silfur og gull. Salomons orkv. 22 kap 1 er.

Að lifa fyrir peningalegan hagnað er hjegómlegt og heimsku legt að hafa það fyrir sitt æðsta mark og mið og ætti engin sannkristin maður að gjöra svo framarlega sem hann vill forðast af drif Ríkamansins sem getið er um í Guðspjallinu og er sagt að hann hafi út tekið sín laun hjer í lífi því hann hugsaði aldrei um að afla sjer annara fjársjóða en þeirra sem mölur og rið fær grandað og hann hefur efalaust yðrast eptir að hafa eitt öllu sínu lífi og öllum sínum kröptum í þjónustu heimsins og þeirra hluta sem í honum eru, Snorri Sál sagði einu sinni "Hverju er falin farsæld mans? firði og rósemi samviskunnar en í hverju hengin afglapans? Íllri meðvitund breitni sinnar. það væri gott þegar maður lítur yfir liðna tímann að sjá eitthvað gott eptir sig liggja og hafa góða samvisku fyrir að maður hefði viljað notað tímann vel. Að það sje hættu legt að fara híngað af því að hjer eru ýmsar trúarskoðanir er hjegómi því ef maður hefur nokkra sjálfstæða skoðun í trúar efnum þá getur maður haldið henni og þarf ekki að láta neina vegvilta veður hana snúa sjer

Og þú segist kæri nafni minn vera einn af þessum vegviltu veður hönum og og verða það þangað til að guð hafi gefið þjer góða og guðhrædda konu o.s.frv. Af minni litlu þekkingu á lífinu vil jeg ráðleggja þjer að freista því ekki svo mjög og skal jeg segja þjer eitt dæmi því til sönnunar að í firra vetur þegar Söfnuðurinn hjer skiptist í tvo flokka n.l. annar flokkurin (meiri hlutinn) breitti lögum safnaðarins og sagði sig úr Kyrkju fjelaginu og hallaðist að Unitara kenningu Sr Magnusar, að hinir sem ekki vildu hillast þá breitingu heldur halda við sína barna trú sem maður hefur lofað að standa stöðugur í alt til sinna æfi loka tóku sig saman og hjeldu sína húslestra sjer og Sunnud.skóla fyrir börn og vóru þar af leiðandi grein af þeim upphaf lega Selkirk söfnuði var jeg og er einn í þeirra tölu Gestur nokkur Jóhannsson einhver skinsamasti maðurinn sem hjer er vildi vera með okkur en af því að konan vildi fylgja hinum partinum sá hann sjer ekki fært annað en hætta við það til að forðast heimilis ófrið en samt sem áður ljet hann

ekki konuna breita sínum trúar skoðunum og nú næstl. vetur gekk hann í okkar söfnuð og er skrifari Safnaðarins (jeg á nú að heita forsetinn) ekki veit jeg hvers vegna þeim þóknaðist að veita mjer þann heiður nema ef vera skildi fyrir það að jeg er ekki mjög útsláttarsamur og jeg held að það sjeu fair sem hafa horn í síðu minni sem svo er sagt kona Gjests mun vera farin að sjá og fleiri að það er fult svo heiðarlegt málefni okkar sem hinna sem hafa viljað fylgja Sr Magnúsi sem munu nú heldur fara smá fækkandi þó þeir ekki vilji viðurkenna það, að vísu getur það alt að einu skeð að konan hafi rjettari skoðun en maðurinn bæði í trúar efnum og öðrum málum en það er aungvan vegin áreiðanlegt því finnst mjer að það vera nauðsinlegt fyrir hvern og einn að hafa skyra skoðun sjálfur ekki síst á trúarbrögðonum og um trúna á hinn algoða almáttuga og alstaðar nálægan þríeina guð og endurlausnarverk frelsarans sindugu minnkini til frelsis og sálu hjalpar má segja eins og Hallgrímur sál Pjetursson segir um bænina "Bæn þina aldrei bigðu fast á brjóstvit nátturu

þinnar, í guðsorði skal hún grundvallast það gefur stirk trúarinnar,

Jeg ítreka það aptur að trúin á hinn algóða himneska föður verður að grundvallast í guðsorði og svo framarlega að við sjeum með sannkristilegu hugarfari, þá getum við kannast við að okkur er ofvaxið að skilja guðlega hluti og guðlega opinberun Maðurinn er svo ófullkomin af sjálfsdáðum og ma þar af leiðandi ekki ýminda sjer að hann hann finni annann betri eða hægri veg til eilífs lífs en þann sem hægt er að fynna í guðsorði ef hans er rjett leitað það er heimskulegur sjálfbyrgings skapur að segja um orð Bybljunnar „þetta er hreint ekki satt" það er óleifileg og heimskuleg djörfung að seigja að það sje ósatt sem Postularnir hafa ritað sendi boðar drottins vors Jesu krists. Jeg er komin leingra út í þetta mál en jeg er fær um að fram bera, en jeg hef skrifað þetta í þeim tilgangi og í þeirri von að þú einhvern tíma fyr eða sýðar hugsir eptir því sem jeg hef hjer sagt og það get jeg sagt þjer kæri nafni minn að í góðum tilgangi er það gjört. Jeg hugsa opt um framtíð barnanna minna

og þeirra sem eru mjer skildir mig tekur sárara til þeirra en hinna sem eru mjer vanda lausir en framtíð barnanna er mikið undir því komin hverju sæði er sáð í þeirra ungu og óspiltu hjörtu en því miður er því svo varið altof opt að það lítur svo út að bornin verði fegin þegar þau sleppa við áminningar foreldrannna og hirða ekkert um að við halda því sem þeim var kent. og sárt hlítur það að vera fyrir foreldrana þegar börnin vilja hverki heira þau nje sjá og hirða ekkert um að hjálpa þeim á elliaronum. Kæri nafni minn vertu góður við hana mömmu þína og reindu til að gjöra henni lífið svo ljett og skemtilegt sem þú getur, þessi fáu ár sem þið egið eptir að vera samann hún stríddi fyrir þjer á meðan þú varst barn og hjálpaði þjer á meðan þú varst ekki sjálf bjarga. nú verður þú að láta hana sjá að þú hafir vilja á að endurgjalda henni það og jeg efast ekki um að þú hafir hann, í raun og veru tala jeg þetta alt eins til systranna þinna og ættir þú að lofa þeim að lesa það og jeg byð ykkur vel að virða. guð almáttugur styrki ykkkur í öllu góðu

2. Júlí

Þú segir að þig langi til að vita kríngum stæður minar og ofan í kjölinn!Jeg þikist æfinlega hafa skrifað svo satt af mjer sem jeg hef getað og Sveinbyrni sagði jeg seinast þegar jeg skrifaði honum frá efnahag mínum og nú sem stendur hef jeg betri von um framtíðina en nokkru sinni áður og líður með besta móti og við höfum viðunanlegt til fæðis og klæðis svo jeg hef aunga von um að það hefði þó verið eins ef að við hefðum verið á okkar kæra landi. Samkomulagið á milli okkar Guðnyar er svo gott að hverugt mun hafa ástæðu til að vera óánægt þessvegna. Ekki er það heldur svo að skilja að jeg hafi fulla vasa af peningum æfinlega það eru margar þarfirnar og alt þarf að kaupa fyrir peninga Vatnið auk heldur annað það eru vissir menn sem aka því út um bæginn og selja 1 tunnu af brunnvatni fyrir 20 Cents jeg hef opt óskað eptir að einhver lækurinn væri komin af mýronum frá ykkur nálægt húsinu mínu það væri ykkur meinalaust en mjer mjög svo þarflegt en jeg hef ekki ennþá hitt óskastundina.

17. Sept.

Þú byður mig að segja þjer eitthvað af Steina Af honum er það að frjetta að hann er við verzlun og hefur tvær búðir. Enskan mann hefur hann haft í sumar sjer til hjálpar og borgar honum 30 dollars um mánuðinn Líka hefur hann Jónínu dóttir Sveins til að vera í annari búðinni þar er og borgar henni frá 8-12 dollars um manuðinn, þar er seldur tilbúinn matur og kaffi og te og ýmislegt smávegis I hinni búðinni hefur hann bæði ytri og ynri fatnað og skótau kaffi og sikur tóbak og m.m. Búðir eru hjer filtar á vorin með föt og hatta og skótau sem ætlað er til sumarsins og aptur á haustin með það sem ætlað er til vetrarinns því sinn fatnaðurinn og skornir eru ætlaðir til hvers árstíma þó meiga sumir þeir fatækari gjöra sjer að b góðu að brúka það sama hvert það er heitt eða kallt veðrið en það er ekki gott og ótækt með sumt t.d. skóna Stígvjelaskor eru of

kaldir á veturnar. það er einn gallin hjer hvað mikill munur er á hita og kulda vetur og sumar. Haustið er skemtilegasti tíminn úr árinu hvað tíðarfarið snertir það er líkast því eins og þegar það var best heima en það vantar svo margt, hjer sjást ekki fjöllinn eða fjeð í brekkonum en hjer í Selkirk er nógur skógur og er ekki annað hægt að segja en að hann sje fallegur þegar hann er klæddur öllu sínu skrauti og það mismunandi viðar tegundir Af því sem að jeg hef sagt af Steina hjer að framan verður þú hjerum bil að ráða hvernin efnahagurin er Jeg er því að sumuleiti ekkert kunnugri en þú en það sjest ekki að hann spari neitt við sig nema tóbak og vín og hann hlítur að standa nokkuð í skilum við skuldanauta sína því altaf hefur hann láns traust og veslunin fer altaf vaxandi og hann getur sjálfsagt verið hjer á eptir í góðum hríngum stæðum ef hann ekki spilar sig um koll (mjer liggur við að segja með óþarfa ágyrnd) Hann hefur að nokkru leiti gengið í þann trúar flokk sem á Islenzku er nemdur Sáluhjálparher, sá trúarflokkur

telur sig sindalausan og sáluhótpin og að allir þeir fari til hel. sem bragða vín svo eptir þeirra kenningu er okkur gamla Sigf. vís sami staður því við smökkum það ein stöku sinnum enda fáum við að heira það. Olöf er nú hjá Steina og Rakel en Sigfús hjá sjer báðum fer þeim heldur hnignandi með heilsun og held jeg helst að Sigfús vildi að þau færu þaðann því honum þikir Ólöf hafa of mikið að gjöra en hú vill ekki fara. I Sumar þegar fólkið kom að heiman var í hópnum sem fór til Nýa Isl. stúlka sem Arnbjörg heitir Kristjansdottir ættuð úr Axarfirði en hafði verið seinast í Fagradal á Hólsfjöllum vinnu kona en af því að fólkið lá í tjaldi og óvíst hvenar að það kæmist þangað sem það ætlaði en þessi stúlka hálf vesæl tók Sigfús hana heim og fjekk hún að vera þar en kveldið sem folkið fór gat hún ekki farið því hún lagðist á sæng og ól barn, og gekk það alt bærilega til svo kom Islensk kona sem á Enskan mann og bað að gefa sjer barnið og var það gjört en það dó litlu seinna Nú er þessi stúlka en hjá Steina og R og verður líklega í vetur Svo ekki er ólíklegt að hún hjálpi Ólöfu með fjós verkin. Líka má geta þess að Steini er í 3 lífsábyrgðarfjelögum als upp á 4000 dollar eða n.l. Rakel á að fá þegar hann deir ef hún lifir þá þessa 4000 dollara

Jeg er í einu lífs ábyrgðarfjelagi uppa eitt þúsund gekk ynní það í sumar og þurfti í fyrsta sinn að borga $8.50C en síðann 1 dollar og 20 Cent á hverjum mánuði á meðan jeg lifi ef jeg ligg veikur á jeg að fá Læknirs hjálp fría en meðölin þarf að borga. Líka á fjelagið að borga mjer dálitla upphæð meðan jeg ligg, er það miðað við það tjón sem jeg verð fyrir við leguna en ekkert skerðir það höfuð stólinn. Ef að jeg skaða mig svo mikið að jeg verð ófær til að vinna á meðan jeg lifi verða mjer borgaðir út 500 dollarar eða helmingur af upphæðinni en hinn helmingurinn er borgaður konunni þegar jeg er dáinn þessi fjelög eru hjer mörg með mismunandi fyrirkomulagi, en mjer fynnst þetta fjelag sem jeg er í vera einna þægilegast fyrir fátæka það er í flestum öðrum fjelögum að ekkert fæst útborgað fyr en maður er dauður.

Þú vilt eitthvað frjetta af Maríu og Ing. af þeim er orðin laung saga og getur verið óþarfi fyrir mig að segja hana því þú hefur líklega eitthvað heirt af henni. Fyrst eptir að þau komu vóru þau til húsa hjá Steina en

eptir lítin tíma fór Ingjaldur að vinna svo þau fæddu sig sjálf. Svo um haustið fóru þau til mín og voru hjer um veturinn þá sendi Krisján bróðir I. þeim fargjald suður til Minnisóta mun það hafa verið nálægt 40 d. og vildi að þau kæmu þá var hann búinn að kaupa land og hús og ýmisl. fleira svo fóru þau til hanns og voru hjá honum nálægt ári. Svo gat Kristjan lítið borgað í landinu svo Karlin sem seldi honum sem er Svenskur tók það aptur peningana sem Kr. sendi I. og M. hafði hann tekið til lans og þegar allt kom til als átti hann lítið Síðan fjekk karlin þau til að fara til sín eða vera kyr (því hann var einn síns liðs) og hafa þau selt honum og fleiri mönnum sem hann hefur í þjónustu fæði í sumar en I. hefur unnið hjá honum og held jeg helst að þau hafi lifað við allgóð kjör síðan þau komu til hanns en í seinasta brjefinu sem María skrifaði mjer sagði hún að karlin væri búinn að selja landið fyrir 4000 dollara fyrir utan öll verkfæri og hesta og að þau vissu þá ekkert hvert þau færu í haust. Jeg held að hana langi

til að komast hingað aptur en jeg byst við að I. vilji það ekki svo er óvíst að þau gætu það fyrir efna leisi svo er slæmt fyrir þau að eiða þessu litla sem þau kunna að eiga í ferða kostnað og koma hingað líkt efnum búinn eins og þegar þau komu að heimann Að mínu áliti hefði þeim verið betra að vera hjer kyr því flækingurin gjörir alla fjelausa. Báðir vóru drengirnir frískir.

22. Otkóber Nylega hef jeg fengið brjef frá Maríu og segir hún að þau sjeu kominn burtu frá karlinu og búinn að renta sjer hús (ekki langt frá Minnisota) (þar sem Jóhannes er Halld.son) fyrir 1 dollar um mánuðinn og ætli að verda þar í vetur og segir að þeim líði bærilega. Steini fór á Cíkago síninguna en er ókominn með 100 dollara fór hann með í vasanum hvert hann eiðir því öllu veit jeg ekki. Nú eru komnir seinustu tímar fyrir mig að enda þetta brjef svo það geti lagt á stað heim til þín og jeg vona að þið faið að sjá það um jólinn. af okkur er ekki annað að frjetta en alt bærilegt. Jeg lá tvo daga í þessari n.l. viku og hef verið hálfvesæll en er nú að koma til og fer líklega að vinna á morgun og hef von um vinnu fyrst eitthvað. Hjer er með mesta móti smíða vinna og lítur út fyrir betri tíma en

hafa verið undan farandi ár, en hræddur er jeg um að l einhver hafi lítið að gjöra í vetur því hingað eru fluttir og flitja altaf svo margir landar sumir efnalausir og skuldugir en altaf þarf maður að hafa vinnu ef ekki eiga safnast skuldir þegar alt þarf að kaupa fyrir peninga. Hvað minn efna hag snertir þá er hann að því leiti betri á haustnóttum nú en að undanförnu að jeg er búinn að kaupa hjer um bil tvo hluta af því heyji sem jeg þarf handa kúnum og kostaði það 10 dollara Hey er hjer selt og keipt allan veturinn og opt ódýrast um jóla leitið, peningalaus er jeg en á hjá öðrum heldur meira en það sem jeg skulda.

Þegar að þú skrifar mjer kæri nafni minn þá segðu mjer nákvæmlega frá öllu því smáa hverninn ykkur gengur að hafa kaffi dropann og svo matinn og yfir höfuð hvernin búskapurinn gengur bæði hjá ykkur Joh. í Seli Sv.b. Holtakoti Litlureykjum og víðar og víðar. Von átti jeg á að Markús og Guðrún kæmu n.l. sumar en það varð ekki en það held jeg að þau gjörðu rjettara í að þiggja hjálp ef hún byðst til að koma hingað vestur því það lítur út fyrir að Steini stæði jafn rjettur þó hann borgaði eina 50 doll Jeg og við byðjum að heilsa öllum í Geitafelli og víðar sem þú verður að geta til hverir eru svo vil jeg byðja guð að gefa ykkur góða heilsu og væga og hagstæða veðráttu í vetur.

Guð veri með ykkur

G. Oddsson

ES. Brjef fjekk jeg frá Sveinbirni í sumar og "ræðurnar" jeg byð að heilsa honum með þakklæti sömuleiðis þakka jeg þjer fyrir það sem þú hefur unnið að því jeg gæti fengið þær.

G.

Myndir:123456789101112