Nafn skrár:JohHal-1875-05-09
Dagsetning:A-1875-05-09
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4416 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Jóhannes Halldórsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1855-09-10
Dánardagur:1935-09-10
Fæðingarstaður (bær):Geitafelli
Fæðingarstaður (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Grenjaðarstað
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-þing.
Texti bréfs

Milwaukee 9. Maí 1875

Elskulegi vinur og mágur!

Beztu þakkir fyrir þitt ágæta bref frá næstliðnum Janúar sem eg meðtók í gærkvöld kl 6 þegar eg kom úr vinnunni, eg segi þjer satt mjer var orðið mál á að sjá og fá frjettir að heiman því síðan 20 Apríl (þá er fyrzt var von á brefunum úr fyrstu Póstskipsferðinni) hef eg ekki getað sofið nema aðra hverja nótt fyrir brefaþrá, þú getur naumast ímindað þjer þær hugrenningar sem vakna í sálu þess er veit sig vinalausan í framandi landi fjærri ekki einungis ættingjum og vinum heldur einnig öllum þeim stöðum er geta glædt eða lífgað minningu hinna blíðu bernsku daga sem í sálum flestra manna eptirskilur einskonar endurskin sakleysis og friðar sem myrkur motlinga og efasemda alldrei til fulls fær sigrast á, og þú getur skilið að einmitt á þeim tíma þegar baráttan stendur sem hæðst og allt sýnist benda á að þolinmæði og 0000 fari halloka fyrir kvalarfullum forsendum, einmitt þá segi eg er manninum næstum ómissandi að njóta eða verða var við innilega hluttekningu og svalandi hughreistingu frá einlægu vinarhjarta til að viðhalda jafnvægi skynsemminnar og jafnvægi milli mannsins sjálfs og kringumstæðanna sem hann er í, og eitt bref gat ekki gjört meiri eða betri áhrif í þessu tilliti en brefið þitt gjörði á mig, mjer fór að nokkru leyti eins og sagt er um menn sem komnir eru í daðan af þorsta úta eyðimörk en finna um síðir heinintæra uppsprettulind, að þeir trúa ekki sínum egin augum fyr en þeir eru búnir að svala sjer, og eins var um mig eg trúði varla að eg læsi rjett fyr en eg kunni ýmsa kafla utan að, en nóg um þetta að sinni, eg er líklega með þessum lánga formála búinn að sverja mig í ætt við þá sem þú segir ætti að rita í stórum stíl en sjeu ekki færir um það og þó eg viti að þú hefur ekki meint þetta til mín þá finn eg samt mikið vel að eg er stundum einskonar loptbelgur í undarlegum skilningi. - Nú eru liðnir 4 dagar síðan eg skrifaði þetta hjer að framan og þar eð eg hef ekki nú sem stendur neinar frjettir að segja þjer þá ætla eg að lofa þjer að heyra hvað fyrir mig hefur komið síðan eg byrjaði brjefið 000000 á Sunnudaginn var; Mánudagsmorguninn fór eg í vinnu kl 7 og hamaðist við að beygja stólabök og vöggugafla

þangað til hvínandi gufulúður (steam-whislte) gaf til kynna að klukkan væri 12. fór eg þá heim til að borða miðdagsmat þegar því var lokið kom brjefberi einn með 12 brjef að heiman öll til Sigurðar Kristleifssonar frá Neslöndum hann borðar í sama húsi og vinnur á sömu verksmiðju og eg, enn var eg ekki búinn að neitt brjef frá Sigfúsi og gramdist mjer því að sjá S þennan fá allar sínar brjeflegu vonir uppfylltar og þetta var seinasti dagurinn sem við gátum átt von á brjefum í þessum mánuði, jeg leit á klukkuna sem sýndi mjer að eptir væru aðeins 5 mínútur af miðdagsfrítímanum og varð eg því næstum fegin því eg vissi að vinnan og samþjónn minn sem eg skal seinna lýsa fyrir þjer gátu haft úr mjer leiðindin að minnsta kosti á meðan eg var hjá þeim, eg lauk upp dyrunum og ætlaði á stað en rjett í því mætti eg landa einum sem heitir Jón og við gráungarnir höfum gefið auknafnið „nothing" hann er ættaður úr Vatnsdal í Húnavatnssýslu, eg sagði við hann ef þú kemur nú með brjef til mín Jón, þá skal eg ekki kalla þig nothing í heila viku, án þess að svara eða láta í ljósi hvernig honum þætti loforðið dró hann uppúr vasa sínum brjef til mín frá Sigfúsi og svo var eg ótilltur að ekki gat eg beðið til kveldsins með að lesa það, svo eg fór ekki til vinnu aptur þann dag, brjef þetta hafði farið til Hafnar frá Englandi og svo gegnum Þýzkaland þessvegna kom það ekki fyren 4 dögum seinna en hin er fóru rjetta leið, orsökin til þessarar óreglu liggur beinlínis hjá hinum ómerkilega póstmeistara Íslands, þannig að hann lætur sumt af Ameríku brjefunum fyrzt og neðst í póstkassann í staðin fyrir að láta þau ofaná með því sem tekið er upp í Englandi, þessi óregla er hið eina sem við höfum nú að segja af hinni Dönsku stjórn eða dylkum hennar en svo eg haldi áfram sögunni þegar eg var búinn að lesa brjefin og sá mót von minni að Sigf ætlar ekki framar að stíga fæti á land hjer, þá sat eg um stund hugsandi til að átta mig á þessum frjettum sem niðurbrutu marga loptkastala - er heimskuleg von hafði um langan tíma gjört sjer ómak með að reisa - einsog þegar eldingu

slær niður í beinvaxið furutrje svo það klofnar í smá sputur ofanað rót og blöðin sem skömmu áður glitruðu í skólskininu með öllum litum friðarbogans og fylltu loptið sætri angan þau tvístrast í ýsmar áttir marin og rifin, en regnið sem steypist niður þegar að eldingin er slökknuð og þrumudynurinn hjáliðin það ber ef til vill með straumum sínum mikið af þessum laufum saman að stofni nýgræðingsins sem engin hefur enþá veitt eptirtekt, og hlynnir að honum með þeim svo hann innan skamms verður eins máske blómlegri en hið fyrra trje, og svona gengur opt koll af kolli að eins fall er annars við reisn, og eins gleði annars sorg, en nóg um þetta næsta dag ásetti eg mjer að færa Þóru Steinsdóttir bréf sem hún fjekk að heiman, hún er hjá bónda sínum um 30 mílur hjeðan og má fara meir en helfing af því á járnbraut, kl. 4 morguninn eptir þegar eg kom á vagnstöðvarnar og ætlaði á stað var mjer sagt að eg væri orðinn 10 mínútum of seinn og gramdist mjer það mjög en aldrei hef eg haft gott af sólaskap pnema þá, því þegar fram a´daginn kom gjörði hið verzta hrakviðri og þrumuveður sem komið hefur hjer á þessu ári og hefði eg orðið nógu fljótur um morguninn gat vel skeð að það hefði riðið mjer að fullu, næsta morgun varð eg nógu árvakur keypti vegaseðil með hraðboðalest (Express-train) og var á 15 mínútum kominn 15 mílur frá bænum; sá sem aldrei hefur sjeð gufuvagn á ferð getur varla ímindað sjer hvernig dauður hlutur kemst á einsmikla ferð og fljótustu fuglar, en þó er þetta svo fljótustu lestirnar fara 1 enska mílu á mínútu eða hjerum bil eina þingmannaleið á hálfum klukkutíma; eg sat inní einum vagninum og var að virða fyrir mjer hinn marglita fjölda af ferðafólki sem sat allt í kringum mig, þegar lestin stansaði alt í einu og vagnstjórinn kallaði með drynjandi rödd „Oak-wood"þ sem er nafnið á vagnstöðvum þeim er eg ætlaði til, eg hefði aðeins tíma til að stökkva út áður en lestin fór á stað aptur og hvarf hún inní

skóginn á vetfangi, það sem eptir var af leiðinni gekk eg og gisti svo um nóttina hjá bónda í góðu yfirlæti, á heimleið vildi ekkert merkilegt til og í það heila tekið varð þessi ferð ekki nærri eins skemtileg og eg hafði búist við skógarnir voru gráir og gróðurlausir en graslendi lítið eitt farið að grænka, því vorið kom mjög seint og alt að þessu hafa verið næturfrost, svo bændur eru sem slæma uppskeru þetta ár, í sumum vesturfylkunum hefur látið betur í ári t.a.m. Kansas en þar eru líka engispretturnar í blóma sínum einsog fyrri svo ekki lítur þar vel út heldur - Jeg lofaði að lýsa fyrir þjer samþjóni mínum, hann er Deutsch-Jankee eða fæddur hjer af þýskum foreldrum og heitir Michael Tomas 18 ára gamall en álíka stór og eg hann hefur kennt mjer lítið eitt í þýzku og vill fá það borgað með Íslenzku en ílla gengur honum að frambera hana rjett, hann brúkar daglega það sem hann kann í því tilliti og setur upp ólundarsvip ef eg hlæ að honum fyrir vitleysurnar, en ef hann sjer að eg er eitthvað þunglyndur hættir hann ekki við fyren eg er orðinn kátur aptur og er mjer því næstum vel við hann fyrir skrípalætin.

það sem þú segir mjer um Gunnl kom mjer ekki óvart í tilliti til Ingibjargar en að hann legði vinskap og trúmensku í sölurnar fyrir svívirðilega eigingirni, það hafði mjer alldrei dottið í hug en látum það svo vera jeg vara mig á honum framvegis, mjer þykir hörmulegast ef varmenni þessu takast áform sín við I. því Jón H. er búinn að þola ofmargt hennar vegna til þess að hún yrði honum ótrú, þú býður mjer að bæta við þessar frjettir seinna og þigg eg það fúslega því þó mjer þyki málið ljótt vil eg samt vita hvaða stefnu það tekur framvegis, eg vona annars að Sigfús lagfæri þetta allt ef mögulegt er og ef hann gætir að því fyrir sínum egin kringumstæðum þó þetta þessi seðill sje nú hvorki orðinn langur nje merkilegur hlýt eg að láta hjer staðar numið að sinni, en eitt er þó eptir nefnil það að ef þú lætur nokkuð úr brjefum mínum í blöðin neyðir þú mig til framvegis að sleppa alveg þeirri ánægju sem eg hef af að skrifast á við þig. eg kem aptur til að kveðja þig

Eg kem nú hjer aptur með grein er þú mátt setja í norðanf. samt með því móti að þú rjettir stafsetninguna þar sem þarf. Um árið frá 30 Júní 1873 til jafnlengðar 1874 fluttist inní Bandaríkin nær 2.000.000 Gallons*)*) 1 Gallon er hjerumbil 4 7/10 pottar af áfengum drykkjum sem að tollinum meðtöldum voru 6.300.000 dollara virði en kostuðu þá sem drukku 12 Millionir doll. innlendir byrlarar veittu þjóðinni 65 mill Gallons af Whisky og 9 mill. tunnur af bjór er til samans kostaði 4000.000.000 og með hinu innflutta 412 millionir ellegar 10 dollars til jöfnuðar á hvert einasta höfuð af allri fólkstölunni að líkindum er tala þeirra sem drekka ekki yfir 5 Millionir og eptir því koma 80 doll um árið 1 1/2 doll um vikuna eða 25 c á dag á hvern þeirra þessi reikningur er nokkuð stórkostlegur en þó eru víst ekki allir drykkjurútar ánægðir með 25 c á dagog hljóta því að fá meira en einn tiltölulegan part. Auk alls þessa er nú nýlega sannað að „whisky" byrlarar hafa um fleyri ár haft í frammi hin vestu tollsvik með því að selja leynilega í smáskömtum fleiri þúsund tunnur af whisky án þess að kaupa hina lögskipuðu tollseðla (Revenue stamps) sem límdir eru á ílátin og hörð refsing liggur við að brúka optar en einusinni hvern þessi tollsvik námu á einum mánuði 1.200.000 dollara virði einungis í þreumur borgum þ.e "St Louis" "Chicago" og "Milwaukee".

Hingað er nýlega kominn bæklingur sá er Jón Olafson hefur samið um Alaska og prentaður var í Washington í vetur, það er víst hin fyrsta bók sem prentuð hefur verið á Íslenzku í þessari heimsálfu fyrir þá sök sendi eg þjer hana einsog nokkurskonar dýrgrip en læt þig dæma um hvert hún að öðru leyti er verð að heita því nafni. Ekki kom Jón Ol. Alaskamálum til umræðu á þinginu í vetur og verður það því ásamt mörgum fleyri innanríkismálum að bíða næsta þings, Jón er nú komin á leið heim til Islands en hvert erindi hans er læt eg ósagt því um það eru misjafnar tilgátur, Olafur frá Espihóli sem hefur verið á eyjunni "Kodiac" í vetur skrifaði hingað fyrir stuttu að 13 Marz þegar

brjefið var skrifað hafði ekki komið neinn snjór en nokkrar rigningar, Olafur hefur í hyggju að koma hingað aptur í sumar þegar þú skrifar mjer næst þækti mjer gaman að heyra hvernig "Forhold" eru nú á Gr.st. er ekki Sra M orðinn alveg ófær um að gegna lengur embætti? og hvað ætli bræður taki fyrir þegar þeir verða að fara þaðan? Mjer þykir ólíklegt að S. gæti fellt sig við búskap einsvel og Björn. Heilsaðu kærlega Snorra br. þínum frá mjer þú lofar honum að heyra það sem leyfilegt er úr brefunum frá mjer því eg hef hverki tíma nje vilja til að skrifa mörgum það sama, spurðu hann líka fyrir mig hvert varðan okkar standi en þá, Jeg skrifaði Sigf í vetur heillanga rollu um bindindisfjelag okkar hjer í Milw. og vona eg að bæði hann og þú hafið tekið vel undir það mál, þó lögin væru næsta ófullkomin í alla staði vona eg að þið hafið fremur lagfært en afbakað þau og þannig virdt meir tilgang þessa fyrirtækis en óliðugan stílsmáta, við ætlustum ekki til að þið umvendið gömlum drykkjarútum eða snúið forherdtum Tóbaksvarnarþrælum á rjetta leið, heldur er þetta okkar "Princip" kenn þeim unga þann veg sem hann á að ganga og þegar hann eldist mun hann ekki af honum víkja seinna skulum við rífast meir um þetta.

Frjettirnar um eldgosið heima komu hjer í blöðunum tveimur dögum áður en brjefin komu, þegar ein af helstu frúm borgarinnar las þær sagði hún "I s'pose they havnðt got good fire-engine's in Iceland, since they can't make that fire go out right off" þetta gefur þjer sýnishorn af þekkingu margra hjer á hinu "praktíska" lífi. Berðu innilega bróður kveðju frá mjer til systra minna og segðu G. að eg skuli seinna borga hennar brjef. Láttu mig ekki gjalda þess hvað þetta bref er illa úr garði gjört, heldur sendu mjer línu með næstu ferð. Fyrirgefðu alt ruglið. Guð veri með ykkur og láti ykkur líða langtum betur en beðið fær þinn einlægur og elskandi vinur

J Halldórsson

Myndir:123456