Milwaukee June 20th 1875 Elskul vinur! Kærar þakkir fyrir langt og gott brjef af 5 Apríl meðtekið 10 þ.m. þú varzt sá eini sem sýnir í verkinu að þú mannst eptir kunningjunum lengur en rjett þá stundina sem þeir eru hjá þjer, eg finn að eg er í stórri brjefaskuld við þig en samt verður þú að láta þjer nægjast með lítinn miða í þetta sinn því hverki er eg upplagður til að skrifa núna nje hef góðan tíma til þess, í dag er nefnil sunnudagur og flestir eru að skemta sjer eptir beztu efnum allstaðar er glaumur háreisti sem veitir ljett að trufla mitt „Langvinska" höfuð, kunningar mínir koma hver af öðrum og segja „ain't you going to have any fun to-day at all" einn býður mjer í skemtisigling útá vatn, annar segir „komdu með mjer að synda" þriðji „keyrðu með mjer útá land" þeir geta ekki skilið í að jeg hafi skemtun af að sitja hræringarlaus við að skrifa. Hjeðan er ekkert að frjetta venju fremur það þykja lítil tíðindi þó maður sje drepinn eða þvíumlíkt það eru daglegar sögur ef ekki hjer þá í „Chicago" og „New York" eg er nú orðinn svo vanur við að heyra það að mjer verður ekki meira um en ef eg heyrði heima að einhver hefði drepið búðarklár Ídag segja blöðin að eldgosin á Islandi hafi gjört 10.000 manns húsnæðislaus og fjöldi hafi oriðð undir hraunleðjunni einkum við Mývatn þessar frjettir hefðu sjálfsagt gjört hryggt okkur hjer ef eg hefði ekki fengið svo greinilegar frjettir frá þjer með seinustu ferð að hitt sem á að hafa skeð seint í Marz hlýtur að vera lýgi, að minnsta kosti vonum við að það sje, 5. Júní um kveldið sá eg nokkurskonar eldstrauma samt í alt öðrum stíl en þann sem þið hafið sjeð heima, þann dag var hjer kosinn erkibiskup og í heiðurskini við hann gengu um 5.000 bæjarbúa (allir Kaþólskir) í fylkingu um borgina með lúðrahljóm og bumbuslætti sem heyrðust langar leiðir en hver maður bar stórt blys á hárri stöng og gengu sex í röð svo fylking þessi varð um 3 mílur á lengd og sýndist langt burtu einsog eldá eg óskaði eptir þjer í huganum til að heyra hljóðfærasláttinn sem var svo aðdáanlega glymjandi að þú getur ekki gjört þjer rjetta hugmind um það fyren þú heyrir annað eins sem líklega verður alldrei heim á Fróni, núna í vikunni sem leið fór eg á „Circus" (og þykist vita að Sigfús hafi sagt þjer frá hvað það er svo eg sleppi að útskýra það hjer) eg skemti mjer vel og sá margt nýstárlegt hið helzta af því var svín sem skyldi mannsmál og svaraði hverju sem það var spurt að þannig að margir brjefmiðar voru lagðir á borð og var prentað eitt orð á hvern þeirra og þegar það var spurt að einhverju tók það með kjaptinum miða með svarinu á, það þekkti líka á klukku og gat spilað vist og Seven-up annað sem eg sá var 15 feta langur höggormur frá Afríku álíka digur og mannslær hann getur drepið stærstu dýr og etið þau upp í einu en ekki þarf hann að jeta optar en 4 sinnum á ári hann er bröndóttur, móbrúnn gulur og hvítur og fellir kreistur einusinni á ári og er þá eitraður í 10 daga á eptir á Circus þessum varð eg svo frægur að spila hálfan klukkutíma á lýrukassa sem var nærri eins stór og eg sjálfur og fjekk eg óverðskuldað hrós fyrir það, ekki var annar vandinn en snúa mátulega hart storri sveif og skipta um lög þegar eitt var spilað út. Þú spyrð mig í brjefinu þínu hvert mig langi ekki heim aptur ef þú gætir útvegað mjer atvinnu sem eg gæti lifað af og svari eg því í einlægni hlít eg að segja Já! en samt ekki strax því mig langar til að reyna hjer fleyra en búið er eg er altaf að velta fyrir mjer hvaða handverk mjer væri best að kunna til að brúka heima en hef ekki enþá fundið neitt bjarg til að byggja á. Núna er eg í vinnu hjá þýzkara og vinn við stóla og vöggusmíði, það er ljett verk en illa borgað, optast er eg að beygja sjóðheitar eikar spítur um 3 álnir á lengd og 1 1/2 pund á þykkt af hitanum eru hendurnar á mjer orðnar kolsvartar einkum í lófunum. þú verður að fyrirgefa besti vinur! þó eg skrifi ekki meira að sinni heilsaðu frá mjer öllum sem þú veizt að mjer eru kærir en einkum systrum mínum Guðnýu og Stínu og litlu frænku líka pabba, Sigfúsi og Snorra br. þínum, þegar eg hef betri tíma skaltu fá lengra brjef frá mjer skrifaðu mjer aptur það fyrsta og láttu mig ekki gjalda þess hvað þetta blað er ómerkilegt og illa skrifað. Guð veri með þjer og láti ykkur öllum vegna betur en eg hef vit á að biðja um eg er þinn einl. og elskandi vinur og mágur J Halldórsson |