Nafn skrár:JohHal-1875-10-19
Dagsetning:A-1875-10-19
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 4416 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Jóhannes Halldórsson
Titill bréfritara:
Kyn:karl
Fæðingardagur:1855-09-10
Dánardagur:1935-09-10
Fæðingarstaður (bær):Geitafelli
Fæðingarstaður (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):Grenjaðarstað
Upprunaslóðir (sveitarf.):Aðaldælahreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-þing.
Texti bréfs

Milwaukee 19. Oct. 1875

Elskul vinur og mágur!

Jeg er nú búinn að gleyma hvað mörg bréf þú átt hjá mjer, en eg þakka þjer þau öll í einu og bið þig að virða til vorkunnar fyrir mjer þó eg gjeti aldrei til hlýtar borgað þjer einsog þú átt skilið, jeg skrifaði þjer í September frá "Alderley", það bréf var þrjá sunnudaga í smíðum því hjá bændum hjer hefur maður ekki aðra tíma til smávika en þegar best gjörir hálfa helgidagana, og kunni eg því mjög illa; - Frjettakaflinn getur ekki orðið langur í þetta skipti, því líf okkar landa hjer í Vesturálfunni er mjög breytinga lítið, hið helzta sem nú er rædt um er nýlendan í "Manitoba" sem sumir að mínu áliti spá allt of góðu fyrir í framtíðinni, að vísu eru þar landkostir góðir og líklega veiði nokkur bæði af vatni og landi, en þar eru einnig stórir ókostir sov sem flugur (horse-flies) („Chink-bugs") sem eg kalla hveiti-maura

og þaraðauki hinir grimmu óvinir allra nýlendumanna hinir villtu Indverjar sem að vísu eru meinlausir í kringum „Fort Garry" eða staði þar sem herlið er og þeir þora ekki að gjöra neitt íllt af sjer en eigi að síður eru þeir ófeimnir að brúka „Tomahawks" og „Scalping-knives" ef þeir fá færi á einhverjum „yanko" svo kalla þeir alla hvíta menn og þýðir það þjófur , - seint í Sept. fóru 8 landar til „Manitoba" hjeðan frá Milw. og var Olafur frá Espihóli þeirra helztur, þeir hittu 260 Isl. í „Duluth" sem einnig voru á leiðinni til Manitoba frá Canada , en síðan þeir settust að höfum við engin bréf fengið frá þeim, eg fyrir mitt leyti er eg nú orðin hræddur um að íslenzk nýlenda eigi sjer alldrei stað í Ameríku, því þó að fáir menn hefðu samtök í sjer til að búa í nágrenni hver við annan, er ekki hægt að ætlast til að þeir gjætu haldið þjóðerni sínu eða túngu, því marg

föld reynsla hefur sýnt að þess konar tilraunir annara þjóða hjer hafa allar orðið til ónýtis, þær hafa horfið og hverfa jafnótt og þær koma í þetta marglita sorp sem hjer er saman komið, og hvaða líkur eru til að Íslendingar sem eru allra þjóða fámennastir sýni meiri samheldni en hinar fólkríkustu þjóðir, sem hingað senda árlega fleyra fólk en til er á öllu Íslandi, og svo mikið er víst að eigi okkur að verða auðið að taka öðrum þjóðum fram í þessu, þá verða ísl að sýna meiri samheldni en þeim hefur hingað til verið lagin. - Þú hefur svo opt spurt mig eptir nokkrum kunningjum sjerstaklega, en jafnvel þó eg vildi helzt leiða hjá mjer að skrifa nokkuð þesskonar heim til Fróns þá gjöri eg það samt af því eg veit að þú ert einsog maðurinn sagðist vera „læst hús sem lykilinn er týndur að. - Lopthur okkar gamli kunningi er nú í „Neenah" sem er lítill bær norðarlega í Wisconsin

hann hefur optast haft vinnu og allgott kaup síðan hann kom hingað vestur, en hefur því miður hefur hann eydt allt of miklu af peningum sínum fyrir drykk án efa í þeim tilgangi að kæfa með því hinar óþægilegu endurminningar sem hann flutti með sjer að heiman, þú veist hvernig tókst til með giptingu hans og þará ofan bættist að hann hafði ást á og var trúlofaður bóndadóttur einni vestur í Húnavatnssýslu, sem hann gleymir aldrei en sem þó er búinn að yfirgefa hann fyrir fullt og allt, jeg kénni mikið í brjóstum Lopt því hann hefur í mörgu tilliti góðan dreng að geyma en hann sýnist að vera einn af þeim sem ólánið eltir æfilangt. Af bræðrum Halldórssonum er það að segja að þeir eru í Nebraska og gefa sig alla við bænda vinnu foreldrar þeirra og bræður komu til þeirra í sumar frá Canada , Jón eldri fjekk góða uppskéru af hveiti í haust, hann er nú búinn

að taka til leigu jörð mannsins sem hann hefur unnið hjá ásamt tveimur hestum og nokkru af áholdum til jarðræktar, líka er hann búinn að kaupa kú og býr nú með foreldrum sínum, en bræður hans vinna hjá bændum þar í grennd Jón vantar nú aðeins það sem þú veizt til að vera ánægður, en því ver er það ekki um kost, hann tók tjóni sínu með dug og stillingu en eigi að síður syrgir hann til dauða frænku mína sem hann er búinn að þola svo margt fyrir, en allt árangurslaust, samt er hann fjarlægur því að álasa henni í nokkru, en lætur ósagt hverju er að kenna þetta óhapp. Núna nýlega hef eg komist að því að Þóra Steinsdóttir sem alltaf hefur verið í vist hjá gamla húsbonda Sigfúsar ætlar ástað í næstu viku vestur til Jóns og er fullyrt að þau sje heitbundinn ekki veit eg hvert það er satt en mjer þætti það vel fara ef hann getur fellt

sig við það, jeg veit að hann hefur fengið bréf frá Þ. sem endaði með „öll orð framvegis eru óþörf ." Síðan hefur hann vízt ekki sent henni mörg óþarfa orð, en minnst af öllu get eg skilið í hvað hefur komið henni til þessa óláns úrræðis sem verður blettur á heiðri hennar framvegis að minnsta kosti í augum þeirra sem þekkja allt eins vel og við gjörum. - Jónas stóri heldur nauthús hjer í Mil. og líður allvel, hann er nýbúinn að eignast dóttur sem en er óskýrð hjer eru nú ekki fleyri sem þú þekkir nema Stefán frá Ljósavatni, hann er einn af beztu kunningum mínum hjer vestra, en eg máské missi hann bráðum því hann er einn af þeim sem ekki hafa fengið vonir sínar uppfylltar hjer í gulllandinu!!! og vill þessvegna fara heim aptur hið fyrsta samt skaltu ekki geta þessa við nokkurn því hann vill koma öllum á óvart

þú hefur opt skorað á mig að segja þjer við hvaða atvinnu eg mundi helzt gjeta fellt mig ef eg kæmi heim, og er það fljótt sagt því eg hef verið og er mikið hneigður fyrir verzlun , eg er nú búinn að reyna margskyns vinnu og jafnvel handverk en leiðist það allt því meir sem eg áset mjer að vera stöðugur, og því meir sem eg reyni hjer, ess heitar bið eg óbæna þeim sem fyrst skrifuðu hjeðan loginn lofstýr heim til Isl. en allt fyrir þetta yðrast eg alldrei eptir fyrir mitt leiti að hafa farið hingað, því eg hef sjeð og lært að þekkja meira á þessum tveimur árum heldur en heil æfi heima hefði getað kennt, ef nú að járnbrautin yrði lögð frá Húsavík uppað námunum þá þætti mjer ekki lengur áhorfs mál að koma heim, því líklega eru ekki svo margir heima orðnir ensku lærðir að ekki væri hægt að fá vinnu sem þýðari og það gæti orðið skemtilegt, en Lock má vera ríkur ef

hann getur byggt brautina, sem kostar vanalega frá 15 til 25.000 dollars ein ensk míla, og því er ver að ísl. eru ekki nógu ríkir til að hjálpa Lock, því brautin gæti orðið til ómetanlegs gagns bæði í tilliti til flutninga og atvinnu. - Þú hefur einusinni spurt mig hvert eg hafi nú sömu skoðun á Ameríku og áður en eg fór að heiman? Nei! því fer fjærri nú get eg dæmt eptir egin reynslu, sem optast hefur dregið dymmt ský fyrir hina barnslegu von sem var uppæst af heimskulegri trúgirni rjett einsog þegar mjúku vindkasti slær á norðurljós svo það blossar upp bjartar en fyr og rýkur í eldlegum öldum frá austri til vestur, þangað til það rekur sig á, tvístrast og verður ekki að neinu, og nóttin sýnist eins dimm og jafnvel dimmri en áður. - besti vinur! ég er nú búinn að gleyma sumu af því sem bar á góma á leiðinni yfir gljúfrin forðum en þú segist skuli vera þakklátur ef eg

svari þjer einlæglega, jeg veit ekki beinlínis hvað þú meinar, en ef þú finnur ekki svar uppá spurningu þína á þessu blaði þá ítrekaðu hana í næsta brjefi, og er mjer sönn gleði að svara þjer eptir beztu vitund, jeg er orðinn sannfærður um að þó eg verði hjer það sem eptir er æfinnar og máské kæmist í áhyggjulausa stöðu, þá gjæti eg alldrei orðið vel rólegur eða ánægður, og orsökin til þess er eitthvert töfraafl - jeg leyfi mjer að kalla það svo - sem Ísland og íslenzkt þjóðerni hefur rótfest í mjer sem með ósjálfráðu magni dregur mig til sín, og sem verður æ sterkara og dýrmætara, því meir sem því er misboðið, og þetta afl sem vantar orð til að lýsa er ættjarðarástin þetta þýðingar mikla orð sem skilst bezt af þeim sem hafa verið eða eru fjarlægir fósturjörð sinni. - jeg hef ásett mjer ef guð lofar að láta þetta verða minn seinasta vetur fyrir vestan haf en fer þó líkl ekki af stað

hjeðan fyren að hausti, það er að vísu nógu snemmt að gjöra strax ráð fyrir því nú en eg segi þjer þetta af því eg veit bæði að þú segir engum frá því nema G. systir og líka vegna þess að þú gætir máské gefið mjer góð ráð um hvar og hvernig eg skyldi koma, helzt af öllu vildi eg geta fengið atvinnu við Gránufjelagið, en þú skalt ekkert gjöra í þá átt að útvega mjer pláss því jeg ætla sjálfur að skrifa Tryggva einhverntíma í vetur og vita hvað hann segir.

Fræið sem þú baðst mig um skal eg senda þjer með fyrstu póstskipsferð eg get en ekki fengið allar sortirnar. Önglarnir sem þú spyrð um fást hjer ekki og er þesskonar veiði aðferð hjer alveg óþekkt hjer fæst sterkt girni en ekki veit eg hvert það er samkyns og það sem að Englendingar brúka, eg skal senda þjer sýnis horn af því samferða fræinu. Ekki hef eg enþá reynt neitt af því

sem þú sendir mjerforskriptina um en ólíkl þyki mjer að ilmvatns tilbúningurinn borgi sig því ein „ounce" af „Ambergris" kostar $7500 og 1 dropi af rose oil 10 cents blekin geta orðið ódýr og útgengileg í vetur ætla eg að reyna það og fleyra smávegis „in the line of speculations" eg hef nú sem stendur enga vinnu, hjer ganga þúsundir manna yðjulausir, svo líkast er eg fari eitthvað burt hjeðan, samt skuluð þið halda áfram að skrifa mjer hingað í „box"ið því við höldum það altaf. Jeg kemst ómögulega til að skrifa systrum mínum og verður þú og G. að gjöra svo vel og láta þær vita að mjer líður bærilega . Berðu bestu kveðju mína Snorra br. þínum, Guðnýu og Stínu systir og litlu Dísu, guð gæfi að ykkur liði öllum vel. - jeg fyrir verð mig að senda þjer þenna ómerkilega miða, sem átt svo margfaldt betra skilið eg bið þig fyrirgefningar á því og vona þú

lesir í málið þar sem þarf. Vertu svo guði á hendur falinn ásamt öllum þínum þess biður af hjarta þinn einlægur og elskandi vinur.

Jóhannes

P.S.

Ef þú getur gjört svo vel og haft uppá adressu Locks brennisteinsberserks þá þætti mjer undur vænt um að fá hana hið fyrsta.

Þinn J.H.

Myndir:1234567