Milwaukee Jan 26. 1876 Elskulegi vinur og mágur! Guð gefi þjer og ykkur öllum gleðilegt nýtt ár! beztu hjartans þakkir fyrir brjefið af 15 okt. og 1 Nov f.á. mjer þótti heldur en ekki væntum að fá það svo að segja í rúmið, á nýársdagsmorgun, og áleit eg það sem fyrirboða einhverrar óvæntrar hamingju á komandi ári, hvar og hvernig sem eg verð hennar hluttakandi. Hjeðan er sem fyrri lítið að frjetta, hjer í Milw. eru núna aðeins rúmir 50 landar og ber lítið markverdt til tíðinda á meðal þeirra, um borgarlífið hef eg vízt áður skrifað þjer einhvern pistil en yfirlit yfir allherjar þjóðlíf Ameríku fær þú að sjá í „Skandinaven" eða er ekki svo? Svo nú lítur helzt út fyrir að eg hafi ekki neitt brjefsefni handa þjer, jú, eptir á að hyggja eg þarf að gjöra dálitla athugasemd við það sem þú segir um bindindi yfir höfuð , eg er þjer þakklátur fyrir að þú segir meiningu þína án undandráttar, og einmitt vegna þess er eg knúður til að segja þjer mitt álit hispurslaust og án tillits til hvert þjer fellur það vel eða illa þú segist aldrei hafa verið meðmæltur bindindi af því þjer finnist það hljóta að vera óeðlilegt hapt á fullkomnu frelsi einstaklingsins og það geti verið ónotalegt fyrir þann sem ekki þarf þess til að geta staðið hjer mætti nú margt um tala, en jeg læt mjer einungis nægja að spyrja þig hvert heldur þjer þikir eðlilegra eða betur samhljóða ákvörðun hinns ódauðlega anda einstaklingsins að reyna til í sameiningu með öðrum að útrýma þessu átumeini mannfjelagsins ellegar að gjöra sig að þræl viðbjóðslegs vana sem fyren varir er búinn að leiða hann í glötunina, einsog það er fyrir einstaklinginn hlýtur það að vera fyrir alla, eða hvernig getur verið ónotalegt að ganga í bindindi fyrir þann sem einsog þú segir „ekki þarf þess til að geta staðið" hafi hann á annað borð enga löngun til að drekka, þá er bindindi engin þvingun fyrir hann, en finnist honum það ónotalegt þá er það nauðsynlegt fyrir hann til að geta staðið og sje það líkt fyrir manninn að ganga í bindindi og „villidýr að leggjast í hlekki í stað þess það sje tamið" þá er sama máli að gegna um öll lög og allan fjelagsskap sem viðgengst til að stemma stigu fyrir hinu illa, hverju nafni sem það heitir, er þá öll hlýðni við lögin þræls ótti og óeðlilegt hapt á tilveru mannsinns? Nei, því fer betur þeir eru til sem hlýða lögunum með frjálsum vilja og einlægri gleði, af því þeir sjá hve öldungis ómissandi þau eru til að viðhalda allskonar menntun og velferð, og þessvegna er nauðsynlegt að þeir hinir sömu gangi á undan með góðu eptir dæmi og leiði hinum breiskari fyrir sjónir að þetta sem þeim sýnast þungir hlekkir, er í rauninni ekki annað en hinn fagri skrúði sjálfsafneitunar og reglusemi án hvers hver einstakur er nakinn að þeirri virðingu og því trausti, sem sjerhver vandaður maður á skilið af meðbræðrum sínum þú segir ennfremur að það sje hrein og óskekkt siðferðistilfinning, sprottin af virkilegri menntun sem ein sje fær um að halda manninum frá þessu gönuskeiði og hefja andann yfir líkamlega nautn! þetta sýnist að vera satt, en hvar getur maður búist við að finna þessa einhlítu siðferðistilfinning? sorgleg reynsla sýndi okkur opt heima að einmitt menntuðustu mennirnir í sveitunum, yfirmennirnir sem áttu að vera leiðtogar almúgans, og ganga á undan með góðu eptirdæmi, höfðu mestann skort á þessari siðferðistilfinningu, og með dæmi sínu afvegaleiddu hina ómenntaðri ístað þess að leiðrjetta þá, það fer um mig hryllingur þegar eg hugsa til nokkurs sem eg heyrði einn fátækann frumbýling segja um leið og hann keypti nokkra potta af brennivíni „eg má til að eiga í staupinu þegar blessaður presturinn kemur" hvílíkur kennimaður sem hefur samvizku til að þiggja já, sækjast eptir þessum bikar sem hann veit vel að hefur verið fylltur fyrir þá peninga er með rjettu áttu að brúkast fyrir fæði og klæðnað handa hungruðum og klæðnaðarlausum börnum hins fátæka, eða hvílíkt yfirvald sem ekki hikar við að selja virðingu sína og velferð þeirra sem drottinn hefur trúað honum fyrir, fyrir vín , fyrir að geta orðið sjálfum sjer til svívirðingar og öðrum til hneixlis. eg hef engan rjett til að ámæla þjer fyrir það þó þú viljir ekki ganga í bindindi en hitt er víst að þetta frelsi sem þú þykist missa við að ganga í bindindi er ekki annað en ómerkilegt tillit til þess að þóknast þeim sem í vináttuskuni - eða rjettara sagt til að fylgja hinum spillta þjóðaranda - bjóða þjer glas af víni, er þú af sömu ástæðu álítur ókurteist að þiggja ekki, but „woe unto him that giveth his neigbour drink, that puttest the bottle to him and makest him drunken." Sá sem ekki getur verið vin þinn án þess þú drekkir með honum eða veitir honum áfengan drykk hann er í sannleika ekki þessverður að vera vin þinn. O, the tyrany of society! It must be branded, else it stamps its red-hot iron hoof on the neck of millions. But to do right is neither vulgar nor stupid. To do wrong is both. Fyrirgefðu bezti vin, hvað eg er orðinn langorður um þetta, en hvað á að gjöra, líttu í landshagaskýrzl urnar eða þjóðvinafjelags almanakið og vittu hvert þjer ógnar ekki að sjá hvernig þessi eyðilegging fer í vöxt, hvað á lengi að láta þetta ganga afskiptalaust? íhugaðu hve mikið gott getur leidt af bindindinu og sjerílagi af framgöngu þinni í því efni, ef þú skyldir snúast til liðs við okkur, sem eg alls ekki efast um þú gjörir fyr eða síðar. jeg er nú ásamt 5 öðrum löndum gengin í fjelag hjer í bænum sem heitir „The Third Ward Temperance League" við höldum fundi hvert fimtudags kvöld í svo nefndri Bethel kirkju, þar er sungið og haldnar skorinorðar ræður ámóti ofdrykkjunni, eg hef opt verið kominn á fremsta hlunn með að halda þar dálitla tölu, en hef ekki haft næga einurð til að byrja mest vegna landa minna. Af löndum sem fóru til Manitoba í haust höfum við ekkert frjett síðan um jól, mesta frost sem þá hafði komið þar var 32 á Reaumur en ekki mikill snjór, þeim lízt vel á sig hvað landið sjálft snertir en vetrar harðindi munu vera þar talsverð, þeir eru búnir að byggja um 40 bjálkahús og fá útmældar lóðir fyrir borgarstæði, aðseturstað sinn kalla þeir Gimli en hvert sælan er þar meiri en að nafninu einu, læt eg ósagt. Af mjer sjálfum er ekkert að frjetta nema þetta sama, nefnil. líkamanum líður vel en sálunni í meðallagi, eg er núna í vinnu á litlu verkstæði þar sem búin er til línolía eg hef ljett verk en ekki nema 45 C á dag í kaup, það þykir gott hjá öðru verra, því flestir landar hjer eru nú vinnulausir og lítur ekki út til batnaðar. Tíðin er ágæt og alls einusinni hefur hjer komið föl í vetur en það tók strax aptur, og nú eru þýður og sólskin næstum hvern einasta dag. Þóra Sveinsdóttir fór vestur til Nebraska í haust og giptist Jóni Halldórssyni 19. Dec. f.á. eptir bréfum Jóns að dæma er hann nú ánægður að svo miklu leiti sem við má búast og alldrei heyrist að hann sjái eptir I. en þó svo væri er eg viss um að hann lærir að elska Þóru, því hún hefur gott hjarta og marga kosti framyfir frænku sína, svo eptir allt stríðið og ósigurinn álít eg Jón hafa fengið gott hlutskipti. Jón yngri hefur í laumi sagt mjer að hann færi heim vorið 77 til að vitja um sína stúlku, það er Mekkín Sylvía, hann hefur skrifað henni, en ekkert svar fengið og er eg búinn að komast fyrir að það er af völdum I. en hvað henni gengur til að vera þeim til meins get eg ekki sjeð, jeg veit að M. er vel við Jón þó hún máské láti það alldrei ásannast. Jeg er búinn að fá allar káltegundirnar sem þú baðst um nema „Chervil" það nafn þekkir engin urtasali sem eg hef komið til og ekki hef eg heldur sjeð það hjer selt eg sendi þjer til reynslu Ruta Baga. sem eg held sje næstum það sama og bótfelskar róur og „cabbage" sem eg íminda mjer að gæti vaxið heima, því það sprettur nálega alstaðar, Blómfræ hef eg ekki getað fengið, en þó reyni eg en einusinni áður en bréfin fara, forskript fyrir sáning á fræinu er einsog þú sjerð á hverjum pakka þú fyrirgefur að jeg sendi þjer ekki meira af hverju fyrir sig eg íminda mjer að þetta geti orðið nóg til reynslu, en ef þú vilt meira skal mjer vera sönn gleði í að útvega þjer það. girnið sem eg ætlaði að senda þjer, læt eg ekki fara því það er ekki vitund betra en gott seglgarn heima hugsaðu ekki um að senda mjer neitt af dagblöðunum eg sje þau öll og bókmentafjelagsbækurnar líka, mjer er margborgað ómakið ef eg vissi þjer gæti orðið fræið að gagni og frumgróða til að koma á fót háÍslenzku fræi af Ameríkönskum ættstofni - Eg nenni ekki að skrifa G. eða Stínu í þetta sinn og fel eg þjer á hendur að útvega mjer fyrirgefningu hjá þeim. Bréfinu til B. bið eg þig að koma til skila svo fljótt sem þú getur, því eg vildi það gæti komið jafnfljótt og bréf sem eg sendi „kallinum" einsog Mangi sagði. framvegis skrifa eg líkl opinberlega eða þá alls ekkert. Fyrirgefðu þetta nauðljóta blað og láttu mig ekki gjalda þess í framtíðinni heldur haltu áfram að skrifa mjer, eg vil þó reyna að senda þjer eitthvert bull með hverri postskipsferð. Berðu beztu kveðju mína Pabba, systrum mínum og systurdætrum nefnil. Dísu og Hildi, guð veri með ykkur æfinlega, þess biður af hjarta ykkar allra elskandi vinur og frændi Jóhannes P.S. Jeg gleymdi að segja þjer að S. Jóakimsdóttir frænka þín er gipt Steffáni Sigurðssyni frá Ljósavatni. J.H. |