Deerfield mass. 10. oct. 88. Elskul. Torfi minn! Með því þessi dagr hefir bæði að veðri og öðru verið einhver hinn þolanlegasti þá ræðst eg í að senda þér línu. Annað ber líka til, nefnil. að kona mín ritar í þessum mánuði dóttr þinni og ætla eg að fljóta með og sýna þér um leið 000t eg er ekki farinn að læra að spara peninga með smárri skrift og léttu umslagi!! Ojá - Eg sit nú svona hér í súpunni Ekki líkar okkr sem best en það er nú ekki að marka, það getr verið gott fyrir því Sumir gera sér alt að góðu, aðrir eru reykóttir og aldrei nægjusamir, þeim er illa farið, hinir eru vel að sér. Það eru nú margir gallar á „súpunni": Konan er - að eg held - fremr vond. Mér þykir hún veita konunni minni lítið frelsi. Hefði húsmóðirin verið henni eins góð og bóndi er mér þá hefði eg þóst veiða vel: - Hér er engin sæla í borðhaldi og kveðr maðr líkt að orði og Grettir á Reyks. „þar verð eg fegnastur mat mínum er ek náða honum". Hér eru flugr og ormar- en - sleppum nú því - þess kyns venst maðr fljótlega við. Her er lítið hægt að læra og það þykir mér nú vest af öllu. Hér skortir sauðfé og sjóarafla. Illur galli. En svo eru ætir bitar í „súpunni". Sjáum nú til: Bóndi er letingi: Altsvo þreytir hann svona ekki um of síst ef hann starfar með. Hann er hestamaðr. Hægt að læra hestameðferð af honum. Hann á einn góðan 4 vetr sem hann hefir nýl. fengið hæsta 00000 fyrir. Hann kostar 16 hundruð dollars. Bóndi er geðgóðr og kátr við menn þegar farnir að hnippast á. Ef hann klípr mig í lærið, klíp eg hann í handlegginn. Konan hefir lofað að kenna mér ensku í vetr, en eg met það alveg eins og þá Sölvi Helgason hafði lofað að flytja mig uppá tunglið. Mesta óregla er á flestu hjá bónda, því hann er sjaldan heima. Er það inntekt fyrir mig meðan eg er öllu óvanr. Eg kann ekki - eg skil ekki - að kalla - eitt orð í ensku, er það mér til mikilla leiðinda. Hefði eg getað verið einn mánuð að skóla nú skyldi eg hiklaust hafa gjört það. En þrátt fyrir þessa vöntun gat eg skilið á bónda í gærkveldi að hempa sem hann á úr selskinni frá Labrador kostaði 150 Dollars þegar eg heyrði þetta datt mér strax í hug Eiríkr rauði eða hvernig hann er nú litr hann Eiríkr þinn. Mjög líklegt þykir mér því að selskinn og hestar frá Ísl. fengju hér góðan byr. Bóndi sagði mér í dag að hann hefði séð núna í Springfield 5 smáa 00000 hesta sem kostuðu 200 Doll. hver. En hvernig ætti svo að fara að koma verzluninni á? - Af því eg er allatíð að rispa heim hef eg ekkert efni í bréf, mér þykir svo leitt að stagla það sama. - þó skal eg nú segja þér í trúnaði að óvíst þykir mér hvort eg eyri hér í sumar. Víst væri mér skapfeldara að verða eptirmaður tengdaföðurs á Kleifum. Þetta kynni að láta sig gera og það heyrðist mér á Eggert. Hann vildi láta mig reyna eitthvað fyrst og stundum sagði hann að við kæmum þá aptr ef okkr liði ekki sem best. Eg er nú bundin í báða skó, og fer mest eptir vilja konunnar í þessu efni og svo hefir það og nokkr áhrif hvað að heiman fréttist og hverjir vinir mínir sækja vestr. En látum okkr nú sjá - Hef eg það þá svo afleitt? Eg er hér í búnaðarskóla læri ögn til jarðyrkju máske fáein orð í ensku o.s.frv. eg hef væntanlega þrefalt meira kaup en eg get búist við með bestu heilsu heima og þetta er árið sem eg er ógróinn sára minna og er að skríða saman. Er þetta nú ekki fult eins álitl. eins og að kosta sig á búnaðarskólana heima? t.d. O.l.d.? O! Láttu ekki pilta þína heyra þetta. Kann vera að úr kvijunum sleppi!! Alt er ljóð. Vertu blessðr og fyrirgefðu þínum einl. elskandi Eldon 12. oct. Elsku Torfi minn. Eg ætla að bæta svolitlu við. Í dag erum við hjónin svo rík að við eigum 19 sent!! Við eigum líka 2-3 skuldunauta sem við eigum fáeina Doll. hjá en sem eg er nærfelt sannfærðr um að allir svíkja. Samt sem áðr og þó mér stundum fljúgi í hug að fara héðan þegar verkast vill, hvað sem ársvistarskilmálum líðr - þ.e.a.s. þegar brýnilegast er breytt við okkr af „nóu" - þá vil eg ekki að haft sé fyrir að senda okkur einn eyri að heiman að sinni. Eg nefnil. heyrði á tengdaföðr að hann vildi hugsa í þa átt til dóttur sinnar. En hann hefir nóg með sig og sitt í þessu ári og því er réttast að við spilum á okkar eigin spil meðan við getum. En skyldi svo fara að eg hlyti vegna óyndis okkar að hverfa heim, þá er mér sú hjálpin kærust af Eggert að hann vildi búa í haginn fyrir okkr með þægilegt hæli, honum er það innan handar. þetta máttu sýna honum því eg hefði skrifað honum alveg á sömu leið hefði eg nú sent honum línu. Hér í Deerfield held eg að flestir séu bæði afburðar ómenni til vinnu og haugatrassar. Eg t.d. skal segja þér eitt atriði af hirðuseminni hérna. Í hlöðu bónda einni er stafli af tóbaksblöðum. Ofaná því ganga nú allir sem hingað koma og ekki eru af betri klassa. þeir sækja sér vistar sem þeir bera burt í fanginu og olæðist000 drjúgan á leiðinni. Nú er ekki þar með búið. 00000 og 00000 sem hér er margt af hafa daglega umgöngu í þessari skemmu. Ekki laga þau til þá eru nálpokar innan um tóbakið, reiðfæri hesta, grís áhöld og margt sem eg get ekki upptalið. En svo Kóróna ein kálfarnir altsaman, þegar þeir eru þar inni og traðka og skíta alt út. Margt fer 0000 þessar. En bóndi er glaðr og kærir sig bölvaðan. Hann er nógu ríkr. Nafn hans er 0000 H. Stebbins og eg kalla hann vanalega „Stebba" svona við konu mína. Von hef eg um að Stebba líki allvel handtök mín og fyrir hefir það komið að eg hef brugðið út af reglum hans og hefir hann tekið eptir mér breytinguna. Eg er heldr að æfast, orðin hálfu fljótari að mjólka kindr en eg var fyrst!! o.s.frv. - Eg hef líka ofrlítið framhjá - Ekki hjá konunni - vel að merkja - svona á 1. ári!! - : Eg nl. gjöri dálítið fyrir mig svo sem skó og bæti mér skinnveski sem Stebbi fleygir. Hvortveggja er dýrt hér vestra eins og þú veizt. Í gær gjörði eg als ekkert af þyngri störfum. Eg saumaði skinnhempu fyrir bónda og var hann ánægjulegr yfir og það einkum ef eg treysti mér til að setja fóðrið . Við þá yfirlýsing hoppaði hann upp og lék sér einsog krakki. Bóndi er allatíð í hestabralli. Á 6 árum hefir hann átt 40 en aldrei fleiri í einu enn 6-8. Muni á hann óteljandi og mörg smíðatól. Þó skortir hefilbekk og smiðju. 2 hluti á hann lakasta í eigu sinni. Það er konutetr og 5 ára strákr bæði leiðinleg. Eg er hissa á Stebba jafnmiklum brallara að hann skuli ekki hafa látið kerlingu fjúka fyirr skárri skepnu!! Aldrei veit eg um akra fjölda hans, þó er eg viss um að hann er víðlendr. Ekki meira. O! góði vinr! mundu mig nú um að rita mér langt og rækilega svo fljótt sem þú getr. I öllum bænum fréttir frá ykkr. kaupfélaginu, hvernig líkar við „Strák". Ástandinu á Kleifum. Piltafjölda hjá þér, vetr, og um fram alt þingvallafundi og stjórnmálin o.s.frv. Vertu blessðr, margblessaðr alla tíma Heilsaðu vinum mínum sem kærast þar í kring um þig og á Kleifum. Þinn vin J.Eldon |