Nafn skrár:RagDan-1887-05-07
Dagsetning:A-1887-05-07
Ritunarstaður (bær):Reykjavík
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):Gull.
Athugasemd:Ragnheiður var dóttir Daníels og Jakobínu
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs 3523 4to
Nafn viðtakanda:Daníel Halldórsson og Jakobína Magnúsdóttir
Titill viðtakanda:
Mynd:frá Lbs.

Bréfritari:Ragnheiður Daníelsdóttir
Titill bréfritara:
Kyn:kona
Fæðingardagur:1863-04-07
Dánardagur:1898-03-27
Fæðingarstaður (bær):
Fæðingarstaður (sveitarf.):
Fæðingarstaður (sýsla):
Upprunaslóðir (bær):Hólmum
Upprunaslóðir (sveitarf.):Reyðarfjarðarhreppur
Upprunaslóðir (sýsla):S-Múl.
Texti bréfs

15/6

Reykjavík 7. maí 1887

Elskulegu foreldrar mínir!

Í þetta sinn ætla jeg ekki að skrifa nema fáar línur því nú fer að verða svo stutt þangað til jeg sje ykkur elsku pabbi og mamma_ Og byrja jeg þær þá með því að óska ykkur hjartanlega allra heilla og gleði á þessu nýja sumri, og sömuleiðis þakka ykkur fyrir veturinn. Þar næst þakka jeg þjer elsku pabbi fyrir síðasta brjefið þitt, sem varð mjer svo gott sem af= mælisgjöf, því jeg fjekk brjefin ykkar að heiman seint um kveldið þann 5. apríl og hjálpaði það ekki lítið til að gjöra byrj un nýja ársins gleðilega. Jeg var þann

9 maí. I gærkveldi komu mynndirnar af Jóhannesi sáluga frá Ögmundsen og þakka jeg þjer elsku pabbi minn fyrir myndina sem jeg fjekk; svo tók jeg við annari handa G. systir. Jeg er ætíð ykkar sama elskandi Ranka.

dag (fyrsta dag ársins) sem fleiri aðra daga hjer í bezta yfirlæti, ekki einasta hjá bróðir mínum og mágkonu, heldur líka hjá Friðriksens hjónunum, þau hafa verið mjer svo ein staklega góð, og vil jeg biðja þig elsku pabbi minn að þakka þeim fyrir mig; Friðriksen hefur optar enn einusinni boðið mjer með dætrum sínum á skemmtanir í vetur, og seinast í fyrradag útvegaði hann mjer eins og þeim hest suður í Hafnarfjöð. Þá heim sótti jeg Lauru konu Jóns Þórarinssonar, og þótti mjer mikið gott að koma til hennar; jeg get mikið kennt í brjosti um hana vegna litlu Kristjnu dótt= ir þeirra, hvað hún á bagt með þetta "mun feil" sem Jónassen segir að mikill efi sje á að nokkurn tíma læknist, og að barninu muni veitast örðugt að geta

talað, menn hafa ekki viljað láta L. vita að svona mikil brögð væru að þessu með barnið, enda gjörði hún lítið úr því við mig. Alltaf er basl fyrir henni með stúlku haldið, þær vinnukonur hennar bera hana svo óttalega út, og nú er eitthvert þjófnaðar"anstalt" þar suður frá. Frú Hafstein er aptur hætt við að sigla hún treystir sjer víst ekki til að lifa þar vegna efnaleysis, samt ætlar hún að láta Marinó sigla og eru margir hissa á að hún skuli vilja freista hanns sem er svo for fallinn í drykkjuskapnum Nú með Lauru sigldi Frans Símsen sjer til læknings hann hefur verið svo geðveikur seinni partinn í vetur, hvað hann hefur sett fyrir sig veit maður ekki_. Af okkur familiunni hjer er allt heldur gott

að segja, en samt er það ekki uppá það bezta hvað litlu Jóhönnu snertir, hún hefur aldrei náð sjer síðan í vetur að hún fjekk lungnabólguna, það er alltaf þessi leiðinda hósti sem ekki vill hverfa; henni fer samt furðanlega fram, og er hún að verða svo skindi leg; hún er fríðari en Bobba, en apt= ur er Bobba margfalt sterkari að sínu leiti, því hún fer með Halldór litla rjett eins og hún ætlar sjer, þó hann sje nærri ári eldri, og liggur stund= um við að hann sje hrædd við hana þegar í hana koma fjörkippir._ Að líkindum skrifar Anna þjer ekki í þetta sinn elsku mamma mín; nú er hún farin að láta gjöra hreint hjá sjer, og líka stendur til að hjer verði far= ið að mála og betrekkja borðstofuna Þegar hjer verð búið að setja í stand, hafa þau mikið skemmtileg herbergi bæði falleg og rúmgóð Nú ætla jeg að hætta í þetta sinn hjartkæru foreldrar mínir og bið ykkur að fyrirgefa þetta krass. Verið svo Guði falin af ykkar

innilegu elskandi dóttir Ragnheiði

Myndir:12