Nafn skrár:SigBer-1899-05-10
Dagsetning:A-1899-05-10
Ritunarstaður (bær):Vesturheimi
Ritunarstaður (Sveitarf.):
Ritunarstaður (Sýsla):
Athugasemd:
Safn:Handritadeild Landsbókasafns Íslands
Safnmark:Lbs. 5020 4to
Nafn viðtakanda:
Titill viðtakanda:
Mynd:mynd vantar (frá Lbs.)

Bréfritari:Sigfús Jónasson Bergmann
Titill bréfritara:bóndi,bókbindari
Kyn:karl
Fæðingardagur:1836-06-02
Dánardagur:1904-03-30
Fæðingarstaður (bær):Garðsvík
Fæðingarstaður (sveitarf.):Svalbarðsstrandarhreppur
Fæðingarstaður (sýsla):S-Þing.
Upprunaslóðir (bær):
Upprunaslóðir (sveitarf.):
Upprunaslóðir (sýsla):
Texti bréfs

Gardar N. Dakota 10. Mai 1899

Kæri herra!

Bestu þakkir fyrir bréf frá 6. febr. og bókasending meðtekna í Apríl, það var rjett að senda Bárdal líka því höfundur kvæðanna er meira þekktur í Canada en hjer. Jeg skal reina hvað jeg get að selja bók þessa, en betur hefdi mjer geðjast að fá kvæðabók föður yðar, það er opt spurt eptir henni. Grettisljóðin seljast ekki líkt því eins vel og jeg bjóst við, en sú bók selst þó alltaf dálítið, Mig vantar Sögusafn Þjóðv. Únga IV árg. og fr.v. og svo fer nú að vanta Pilt og Stúlku. Með seinustu póstferð þ.á. vona jeg að geta sent yður nokkuð fyrir Fjárdrápsmálið og fl. Bankadrátt kr. 150 legg jeg hjer með, vona það sje góður gjaldeyri eða svo hefir mjer reinst það til annara. Jeg borgaði fyrir hann $40 60/100 Íminda mjer að þjer

fáið ekki betri býtti þegar jeg sendi seðla. Væri gott að heyra álit yðar um það, því þó nokkur áhætta geti verið að senda peningabrjef vil jeg heldur gjöra það ef þjer kjósið það heldur. Krónan kostar hjer 25 Cent og svo Ávísanin sjerstaklega 25-50 C, eptir hvað upphæðin er mikil.

Í Frjettum mætti margt segja, en jeg bara gét þess að okku (löndum) líður vel, einsog þjóðinni yfir höfuð, munu það fádæmi að þjóð sem á í kostnaðarsömu stríði hafi blómlegri og meiri verslun en nokkrusinni áður, en svo er það hjer, og stríðskattinn merkjum við valla. Margir eru tregir að selja hveitið nú, þykir verðið lágt, og fyrir það kaupa menn minna af bókum. Tíðarfar ekki hentugt, seint sáð. Eptir snjólausann vetur, hefir vorið verið fremur kallt með sífeldum vætum fram til 6. þ.m. svo lítið varð sáð. Nú þessa viku sumarhlíindi og öll úti vinna á harda flugi, en það er í seinnalagi ef ekki viðrar hentugl. hjer eptir.

Með kærri kveðju yðar skuldb. vin

S. Bergmann

Myndir:12